138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:13]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég óska þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé ekki með neitt gjamm hér. Ég vil byrja á því að spyrja hvort ekki sé tilhlýðilegt að forseti láti draga frá gluggatjöldin í tilefni þess að það er kominn nýr dagur, það er alltaf gott að fagna nýjum degi.

Virðulegi forseti. Flottræfilsháttur getur verið skemmtilegur út af fyrir sig ef sá sem ástundar hann gerir það á eigin ábyrgð og á eigin kostnað. Það er hins vegar skelfilegt þegar hæstv. ríkisstjórn Íslands ætlar að ástunda það að sýna þann flottræfilshátt að borga kröfur sem Íslendingar eiga ekki að borga, sem Íslendingar bera enga ábyrgð á heldur einkaaðilar og það er ekki til stafur á bók, hvergi í Evrópureglum um það að ríki eigi að bera ábyrgð á einkarekstri, hvergi stafur, og þess vegna er þetta skelfilegt. Það er eins og hæstv. ríkisstjórn sé haldin 2007-sýkinni og hugsi ekkert um afleiðingarnar af því sem hún er að gera. Það er áleitin spurning, virðulegi forseti, um þessar mundir að velta því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort Ísland sé að verða efnahagsleg nýlenda tveggja gamalgróinna nýlenduþjóða, Bretlands og Hollands. Þetta er hlutur sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ættu að ígrunda alvarlega og gæta þess að vaða ekki í villu eða svíma Evrópuglimmersins sem sumir eru mjög illa haldnir af.

Það var ekki glæpur, virðulegi forseti, að veita mönnum frelsi, þjóð sem hefur lengst af búið við höft. Nefna má Gamla sáttmála 1262, einveldið 1662, 700 ára kúgun Íslendinga, nýlendustöðu Íslendinga þar til sjálfstæði landsins var klárt og kvitt. Síðan eru aðeins liðin 65 ár. Sjálfstæðisbaráttan heldur endalaust áfram, ekki síst hjá lítilli þjóð sem er dýrmæt og verðmæt og margir ásælast. Það hefur ekkert breyst úti í hinum stóra heimi hjá þessum forhertu gömlu Evrópuþjóðum, Bretum, Þjóðverjum, Hollendingum og Spánverjum. Það hefur ekkert breyst í framkomu þeirra eða hugsun gagnvart þjóðum um allan heim, sagan lýgur ekki, sálin er sú sama og við skulum vara okkur á henni.

Þeir sem stjórnuðu landinu undanfarin ár og missiri vöruðu sig ekki á því að þeir voru með aladínlampa, töfraflösku í höndunum og gerðu þau mistök að taka tappann úr. Allir púkarnir sluppu út og það var reynt að koma púkunum aftur í flöskuna en það gekk ekki og því er fjandinn laus, virðulegi forseti.

Dönsku einokunarkaupmennirnir á sínum tíma fluttu peninga út í aldir og til að undirstrika velmegun sína fyrir landanum settu þeir púða framan á magann og bjuggu til ístru til að sýna hvað þeir væru vel stæðir. Það skiptir miklu máli að hugsa til þeirrar stefnu sem til að mynda Fjölnismenn ástunduðu. Þeir vildu byggja upp Ísland og auka velmegun landsmanna. Þeir höfðu engar hugmyndir um að skapa atvinnu fyrir aðrar þjóðir, þeir trúðu á Ísland og framtíð þess á íslenskum forsendum. Það gengur ekki fyrir íslenska stjórnmálamenn sem hugsa um það eitt að sitja undir völdum að lygna aftur augum og láta sem ekkert sé.

Það er ekki skrýtið þó að menn velti því fyrir sér til að mynda hvaða flétta er í gangi á þessum tímamótum þegar Evrópubandalagið tilkynnir að það ætli að opna Evrópuskrifstofu á Íslandi. Er það tímabært? Hvað liggur að baki? Hvaða valdaspil Evrópuþjóðanna liggur að baki gagnvart sjálfstæðu Íslandi? Það skyldi þó ekki vera að þeir hugsuðu sem svo að ef þeir næðu að króksetja Ísland inn í Evrópubandalagið þá væri léttari róðurinn gagnvart Noregi, þá væri léttari róðurinn að ná yfirráðum yfir norðurhöfunum, í Atlantshafinu, norðursvæðinu sem kann að verða mjög eftirsóknarvert innan skamms tíma.

Grímsey á Íslandi er svæði sem Íslendingum þykir vænt um. Grímseyingar skipta sér ekki mikið af hvunndagsrekstri íslenska samfélagsins. Í Evrópusambandinu yrðum við ein lítil Grímsey, eitt lítið þorp á Spáni, Bretlandi eða eftir atvikum einhvers staðar annars staðar. (VBj: Þú ert með vitlausa ræðu.) Virðulegi forseti. Mér heyrist að það sé einhver vitlaus hv. þingmaður sem situr í hliðarsalnum og ég votta honum samúð mína og fagna því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir situr nú með glæfrabók og les í tómstundum sínum en skiptir sér ekki af neinni málefnalegri umræðu í þingsal. Til hamingju með þessa bók. (Gripið fram í: Sagði hver?)

Það er nú svo að Samfylkingin gengur um í evrópskum silkinærbuxum, líklega g-streng, og trúir blint á Evrópubandalagið, blint, sótsvart, kjaftsvart eins og Færeyingar segja, á Evrópubandalagið, hugsa ekkert um annað en komast í partíið, taka snúninginn og hafa gaman af fjörinu en það er ekki fyrir Íslendinga, það er fyrir þá sem fengu flensuna í Brussel.

Það er líka sorglegt til þess að vita, virðulegi forseti, að vinstri grænir virðast heillum horfnir og eru nú ekkert annað en messaguttar hjá Samfylkingunni. Það er út af fyrir sig virðingarstaða en maður hefði haldið að það væri meiri metnaður hjá vinstri grænum sem hafa verið þekktari fyrir það að minna á jökultunguna ryðjast fram en vera ekki eins og bráðnir frostpinnar eins og þeir eru í dag. Það er sorglegt vegna þess að það er alveg sama þó að menn kunni að greina á, sósíalistar og alvöru vinstri menn hafa verið hugsjónamenn, þeir hafa staðið fast á sínu, þeir láta ekki rugga bátnum, þeir segja sína skoðun, maður veit hvar maður hefur þá og þeir vita hvar þeir hafa mann. Það er best þannig í lífinu að vera ekki með einhverjar slæður í þeim efnum. Það virðist vera að Samfylkingin sé endanlega búin að gefa Ísland upp á bátinn, haldin einhvers konar sjálfseyðingarhvöt, þetta eru hlutir sem við þurfum að velta fyrir okkur, þurfum að taka afstöðu til.

Það var ótrúleg ræða hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, þegar rædd var umsóknin í Evrópusambandið. Ég nefni þetta að sjálfsögðu vegna þess að umsóknin í Evrópusambandið, Icesave-samningarnir og það mál sem við erum fyrst og fremst að glíma við þessar stundir er gersamlega samtvinnað úr tveimur hönkum í eina. Þessi ræða hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta, var á þessa leið:

„Ég hef þá sannfæringu að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ég hef þá sannfæringu að bandalagið sé á krossgötum eins og heimurinn allur og þurfi á endurmati að halda. Þar þurfi að efast um mælikvarða, grundvöll og forsendur þess samfélags sem við höfum byggt á Vesturlöndum undanfarinna áratuga. Ég hef þá sannfæringu að lýðræðið sé fyrir borð borið í Evrópusambandinu vegna þess að valdið er of langt frá fólkinu. Ég hef þá sannfæringu að markmið Evrópusambandsins sé að verða stórt og sterkt og hugsanlega sjálfstæður gerandi í stríði á forsendum valdbeitingar og yfirgangs eins og um hernaðarbandalag væri að ræða. Ég hef þá sannfæringu að Evrópusambandið snúist um forréttindi Vesturlanda umfram fátækustu ríki heims og það orki tvímælis að keppast við að koma okkur í slíkan félagsskap nú þegar fátæktin í heiminum verður sífellt alvarlegri og leiðrétting á misskiptingunni sífellt meira aðkallandi. Ég hef þá sannfæringu“ — sagði hæstv. umhverfisráðherra að lokum í þessari ræðu sinni þar sem hún gerði grein fyrir atkvæði sínu — „að Evrópusambandið snúist um hagsmuni á forsendum 20. aldarinnar en ekki þeirrar 21. Ég hef líka sannfæringu fyrir því að það séu breyttir tímar á Íslandi. Ég hef þá sannfæringu að í svo stóru máli eigi almenningur allur milliliðalaust að fá aðkomu að aðildarsamningi Íslands og Evrópusambandsins og segi já.“

Hvaða ruglveröld erum við í, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Þetta var rökföst, ákveðin og vel skilgreind ræða sem umturnaðist á lokaorðinu já. Það var allt sem mælti á móti jáinu en það kom til að þóknast Samfylkingunni. Guð minn almáttugur, virðulegi forseti, minna má nú gagn gera. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er ekki ótilhlýðilegt að vitna stundum í raunsögur úr íslensku þjóðlífi til að bera saman vinnubrögð. Í Meðallandi fyrir rúmlega 100 árum strandaði frönsk skúta. Þar var bjargað 20 sjómönnum frönskum. Öllum sjómönnunum var bjargað og þeim var dreift á bæi í Meðallandinu. Einn sjómannanna fór á bæ þar sem voru hjón og ekki aðrir íbúar. Það var eitt rúm, hjónarúmið, og í virðingarskyni við hrakinn sjómanninn var honum boðið að sofa á milli þeirra hjóna. Það leið ekki á löngu þar til sjómaðurinn fór að snúa sér að húsfreyjunni og gekk það fyrir sig eins og efni virtust standa til án athugasemda frá eiginmanni sem bylti sér þó allmikið. Þar kom að að konan snýr sér að bónda sínum og segir: „Segðu manninum að hætta.“ Þá svaraði bóndi: „Ég? ég tala ekki útlensku.“ Þetta er nákvæmlega sama, virðulegi forseti, sem ríkisstjórn Íslands er að bjóða Íslendingum upp á í dag, hún er að láta erlendar þjóðir riðlast á Íslendingum, (Gripið fram í: Allt …) riðlast á sjálfstæði Íslendinga og (Forseti hringir.) belgja sig út og mismuna hlutum (Forseti hringir.) sem gengur auðvitað ekki.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að gæta orða sinna.)

Virðulegi forseti. Ég tala íslenskt mál hispurslaust en ekki heypokaloðmullu. Það var ekkert óeðlilegt við það sem ég sagði. Orðið að riðlast á við mjög marga hluti þegar gengið er til margra þátta í íslensku þjóðlífi.

Það er nú þannig að núverandi ríkisstjórn hefur sýnt ótrúlegan undirlægjuhátt við Breta og Hollendinga, ótrúlegan undirlægjuhátt. Hún hefur varið valdbeitingu þessara þjóða og kynnt Íslendinga sem eins konar hreppsómaga. Það er ekki sá stíll sem er samboðinn Íslendingum. Það stefnir í ef ríkisstjórnin nær fram þessum vitlausustu samningum í sögu Íslands, Icesave-samningnum, nær einhliða á forsendum Breta og Hollendinga að það þurfi 80 þúsund Íslendinga, um það bil helming allra tekjuskattsskyldra Íslendinga til að borga vextina af Icesave fram til 2016. Síðan fer það eitthvað lækkandi eftir atvikum en þó er það ekki víst. Það hefur ekkert verið kannað neitt með áhættu eða skilgreiningar í þeim efnum. Menn stinga bara höndunum í vasann, tuða í hornum og segja já.

Það er stefnt að því með þessum hætti að helmingur tekjuskattsbærra Íslendinga sé að borga vexti til Hollendinga og Breta með öllum gjöldum í þennan áratug, (Gripið fram í.) öllum gjöldum til 2016. Það er stefnt að því með þessum hætti að fjármálaráðherra Íslands verði aðalinnheimtumaður fyrir erlendar skuldir og samt veit enginn enn þá hvað er rétt í þessu máli. Það veit enginn enn þá, virðulegi forseti, hvað er rétt í þessu máli, og það er verst. Það er skárra að ganga til verka þegar menn vita óvissuna, vita vandann í stað þess að renna blint í sjóinn og treysta á guð og lukkuna. Það er ekki boðlegt hjá Alþingi Íslendinga.

Það er auðvitað ekki hægt að samþykkja það að Bretar og Hollendingar valti þannig yfir íslenskt samfélag með fjárkröfum sem eru hvort tveggja valdníðsla og ofbeldi og hreðjatak sem engu eirir. (Gripið fram í: … aftur kominn þangað.) Það er sérkennilegt, virðulegi forseti, að heyra athugasemdir sumra hv. þingmanna, jafnvel hæstv. ráðherra, um skilgreiningu á íslenskri tungu. Þeir ættu að þekkja betur íslenska tungu en svo að það sé hægt að skilgreina það sem ég segi á einhvern hátt annan en þann að það sé snarpt til orða tekið og á ekkert við hvort það er ofan eða neðan mittis eins og hæstv. heilbrigðisráðherra talar um (Gripið fram í.) og sem gjammar bara úti í horni eins og hennar er háttur.

Það er verið að fikta við stjórnarskrána, það verið að fikta við íslensku stjórnarskrána, hv. þingmenn. Það er sami leikur og hjá tröllkonunum í Hlina kóngssyni sem köstuðu fjöregginu á milli sín. Við sem teljum að það komi ekki til greina að samþykkja Icesave eins og samningurinn stendur að vilja Breta og Hollendinga, munum verja fjöregg Íslands fram í rauðan dauðann, verja hagsmuni Íslands en ekki erlendra ofurfjárfesta og rótgróinna nýlendukúgunarþjóða þegar það liggur fyrir hjá virtum lögmönnum að þeir vara mjög við því að gengið sé til loka þessa máls án þess að ganga úr skugga um að þetta gangi ekki á skjön við íslensku stjórnarskrána. Má þar nefna til að mynda bæði Sigurð Líndal prófessor, Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmann og fleiri, Stefán Má Stefánsson, sem allir hafa varað við þessu en það er ekki hlustað á þessa íslensku lögspekinga af því að það hentar ekki í Evrópupartíinu.

Það er nú svo, virðulegi forseti, að við Íslendingar vorum vissulega mörg orðin að útlendingum í okkar eigin landi þegar geggjun útrásarinnar gekk yfir. Þeir sem vildu vera Íslendingar nánast fyrirverðuðu sig fyrir að vera hvítir hrafnar í þessu svarta geri útrásarvíkinganna. Menn flutu sofandi að feigðarósi og það eru hrikaleg örlög að lenda í bæði heimatilbúnu og utanaðkomandi hruni og fá síðan ríkisstjórn sem heldur að Íslendingar geti nærst á rúllutertum frá Brussel og skýlt sér með glimmerskreyttum strimlapylsum frá sama bæ. Það sem dugar okkur best er íslenskt, íslenskt og aftur íslenskt.

Ég fagna því, virðulegi forseti, að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er hætt að lesa reyfarann sem þingmaðurinn var að lesa úr áðan. Forsendan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður á sínum tíma upp úr sjálfstæðisbaráttunni í kringum 1920 var sú að það var í rauninni trú á frjáls viðskipti og sjálfstæði Íslands en með fullkomnu valdi yfir púkunum í flöskunni. Það skiptir öllu máli, því að ekki einu sinni færustu hagfræðingar geta reiknað púkana ofan í flöskuna ef þeir eru sloppnir út.

Það var miðað við 25 ár frá 1918 þegar fullveldið kæmi til Íslendinga, 25 ár, þá var hægt að taka ákvörðun um sjálfstæði Íslands. Sjálfstæðisflokkurinn var í fararbroddi fyrir þeirri baráttu og við hlið hans stóðu sósíalistar, íslenskir sósíalistar. Aðrir vildu ekki slíta sambandi við Dani á þeim forsendum að það yrði eins og kallað var hraðvirkt. En það var gert sem betur fer og gekk eftir fyrir forgöngu þessara tveggja stjórnmálaafla. Enn stendur baráttan, virðulegi forseti, og þótt sósíalistarnir, Vinstri grænir í dag, a.m.k. hluti þeirra, gangi nú til leiks flakaðir öllum hugsjónum um sjálfstætt Ísland og verji nú leynt og ljóst hagsmuni Breta og Hollendinga er það ekki til heilla íslensku fólki hvorki til sjávar né sveita.

Það er ekki málþóf, virðulegi forseti, að verja Ísland vegna hugsjóna og möguleika Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Við sem verjum Ísland í þessari stöðu, í þessari umræðu, viljum ekki hlaupast undir Breta og Hollendinga og láta þá féfletta okkur. Þessar nýlenduþjóðir hafa alltaf getað séð um sig sjálfar. Við eigum ekki að samþykkja nauðungarsamninga, við eigum að knýja málið fyrir dómstóla, líka vegna þess að við munum aldrei geta fengið verri dóm en núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur skrifað undir og freistar þess nú að beygja Alþingi ofan í duftið í algjörri uppgjöf fyrir erlendu nýlenduherrunum.

Virðulegi forseti. Það veit enginn hvort Ísland getur lifað af þessar hamfarir ef vilji ríkisstjórnarinnar gengur eftir. Það er hrikalegt að þurfa að spyrja að því hvort við séum að missa sjálfstæðið vegna þess að íslensk stjórnvöld voru ekki á varðbergi þegar tappinn var tekinn úr aladínflöskunni. Mistökin voru gerð en við verðum að læra af mistökunum og umfram allt ekki tapa trúnni á sjálfstæði Íslands. Íslenska þjóðin á ekki að blæða fyrir mistök sjálfstæðismanna eða annarra flokka eða forustumanna þeirra. Voru ekki hv. þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir hæstv. forsætisráðherra og Björgvin Sigurðsson hv. alþingismaður, voru þau ekki ráðherrar 2007? (Gripið fram í: Og Össur.) Já, já, fyrir utan Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er ekkert einfalt og það þýðir ekkert að vera að kenna neinum um þó að það megi staðfesta það að menn stóðu ekki vaktina sem skyldi. (Gripið fram í: Hver tók tappann úr aladínlampanum?) Það er alveg sama — sjálfstæðismenn eiga síst að neita því að það hafi ekki brugðist hjá þeim eins og öðrum, það er engin spurning. En til að mynda hefur hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur Sigfússon oft ítrekað að það sé hlutverk stjórnarandstöðunnar að vera á vaktinni og gæta alls, hafa augað opið til allra þátta, brást það kannski líka? Þetta er ekki málið, málið í dag er það að snúa vörn í sókn og eins og hér hefur komið fram í umræðu í kvöld þá hefur það brugðist að menn stæðu saman, það hefur brugðist. Það hefði betur verið gert strax því að málið er svo hrikalega stórt og erfitt ef menn standa ekki saman.

Virðulegi forseti. Það er stundum nánast töfrum líkast hvernig Samfylkingin getur breytt sér í hvítar dúfur þegar eitthvað kemur upp, þá loka þau augunum og bíða eftir Brussel því að þau trúa að Evrópusambandið sé himnaríki á jörð. Þó eru þetta löndin sem hafa traðkað á okkur og troðið og lítillækkað undanfarin missiri og það hefur ekkert farið á milli mála að þessi lönd hafa sýnt okkur ótrúlega lítilsvirðingu. Meira að segja Norðurlöndin fylgdu í kjölfarið „kære brødre og venner“ sem reyndist bara hjóm eitt þegar á reyndi. Aðeins ein þjóð, Færeyingar, hafa sýnt manndóm til að standa við bakið á Íslendingum, ein þjóð í Evrópu. Önnur ætlaði að gera það, Pólland, en Evrópusambandið bannaði þeim það (Gripið fram í: Nei …) og setti þeim skilyrði. Svo vill þetta ágæta fólk sem skipar að stórum hluta stjórnarsinna í dag ganga í hjónaband við Evrópusambandið. Þetta er ótrúlegur geðluðruháttur og uppgjöf, virðulegi forseti,

Virðulegi forseti. Evrópusambandið vantar norðursvæðið, vantar Noreg, vantar Ísland með allar sínar auðlindir, orkuna, vatnið, fiskimiðin, landbúnaðinn o.s.frv. Það yrði blóm í hnappagat Evrópusambandsins að geta kyngt Íslandi. Vonandi munu alvöru vinstri menn hafa þrek til þess að verja í nafni sjálfstæðs Íslands þá aðför sem nú er gerð að Íslandi annars er leikurinn tapaður. Kannski var hrunið guðsgjöf, virðulegi forseti, varnagli gegn brengluðum mönnum sem voru trylltir af græðgi og drógu með sér mætustu menn. Fordekrun Íslands er hluti af vandamálinu því að þegar menn hafa haft það gott lengi tapa menn oft áttum og gleyma hvernig á að bregðast við þegar illa gengur. Það var gott dæmi um þessa sýndarmennsku þessa tíma þegar menn réðu Elton John og Tinu Turner til að syngja og dansa fyrir íslensk stórfyrirtæki en ekki Ómar Ragnarsson, Ladda eða þá sem voru af íslensku bergi og íslenskum grunni. Þetta var allt af því að tappinn var tekinn úr aladínflöskunni og púkarnir sluppu út og fáir réðu við púkana og fáir voru í sömu sporum og Sæmundur fróði þegar hann plataði kölska til að moka fyrir sig flórinn. Hann réð við púkann.

Virðulegi forseti. Öll okkar menning hefur fallið að sjálfstæði Íslands. Ef upp koma einhver efamál varðandi stjórnarskrána eins og lögspekingar okkar hafa bent á, ef upp koma einhver efamál varðandi sjálfstæðið þá er það stjórnarskráin og sjálfstæðið sem á að njóta vafans. Við höfum í engu sýnt eðlileg viðbrögð eða marksækni gagnvart erlendum þjóðum í framgangi þessa máls alls og það undirstrikast með sögu minni úr Meðallandinu. NATO sem á að verja Ísland, virðulegi forseti, NATO er í Afganistan og varðar ekkert um Ísland frekar en Bandaríkjamenn eða aðra sem þóttust vera samherjar okkar. Ef við eigum ekki samleið í NATO sem virðist vera í dag eigum við að segja okkur úr NATO og sýna a.m.k. tennurnar í þeim efnum og vera ekkert efins um það eða veik fyrir því að setja fram ýtrustu kröfur. Ef við eigum ekki samleið með Norðurlöndunum þá skulum við bara leita okkur að öðrum samstarfsmönnum. Við skulum ekki þegja og þegja og þegja og láta eitthvað yfir okkur ganga af því að við tölum ekki pólitíska eða menningarlega útlensku. Þetta skiptir máli, virðulegi forseti. Það skiptir máli að menn standi fyrir því sem þeir eiga að verja sem er íslenskt stolt, metnaður, þor og vilji.

Einhver dýrasti aðgöngumiði í heimi er núna í umfjöllun, aðgöngumiði Íslands að Brussel, dýri aðgöngumiðinn á Evrópuballið sem Íslendingar munu að sjálfsögðu ekki taka þátt í. Það er ótrúlegt hvað fólk ber höfðinu við steininn og trúir því að Íslendingar láti blekkjast. Íslendingar eru engir aular, Íslendingar eru sjálfstætt fólk með einfaldar kröfur, venjulegt fólk, dugmikið fólk sem trúir á landið sitt, trúir á fólkið sitt og það skiptir öllu máli. Menn skyldu ekki gleyma því virðulegi forseti, að þegar þessu lýkur munar ekki nema kannski einum sálminum til eða frá á mönnunum. Það er ekki meiri munur. Í ljósi þess eigum við að verja Ísland, okkar litla en verðmæta land sem er hjartað í okkur sjálfum. Vill ríkisstjórn Íslands verja það að Ísland verði að efnahagslegri nýlendu hjá Bretum og Hollendingum? Vill ríkisstjórn Íslands það? Stjórnarsinnar svara engu hér, það er í mesta lagi að þeir grípi fram í eða komi upp í umræðu um störf þingsins. Þeir segja ekkert um sínar skoðanir og það varðar engan um þær, ekki nokkurn, halda bara sínu striki í þögn og kærleika.

Það fór ekkert á milli mála og það vita allir að þegar hrunið skall á átti seðlabankastjóri Íslands fund með seðlabankastjóra Bretlands og seðlabankastjóri Bretlands staðfesti að það væri sín skoðun að Ísland bæri enga ábyrgð á Icesave vegna þess að Icesave var stillt upp sem fjárhættubankaviðskiptum, áhættuviðskiptum umfram það sem var eðlilegt á þessu sviði og á þeim tíma og ekki væri hægt að ætlast til neinnar ábyrgðar í slíku af hálfu Breta gagnvart Íslendingum. Þetta er vitað mál. Stjórnarsinnar þegja um þetta þunnu ljóði. — Virðulegi forseti. Væri hægt að loka þarna inn svo maður geti talað eðlilega án þess að hafa klið í salnum?

(Forseti (RR): Það verður gert.)

Það eru reyfararnir. Það er þannig, virðulegi forseti, að erlendir ráðamenn hafa sýnt Íslendingum yfirgengilega lítilsvirðingu og hæstv. ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar þora ekki að tala um það, þeir vilja ekki tala um það. Þeir vilja bara afgreiða málið blint og galið, þegja þunnu hljóði og láta yfir sig ganga og ekkert hugsað um afleiðingarnar. Þeir bera sig eins og Jeppi á Fjalli í þeirri ágætu sögu. Gera menn sér ekki grein fyrir því, virðulegi forseti, að Íslendingar munu aldrei leyfa, svo fremi að þeir fái að ráða, erlendu skipi að veiða svo mikið sem einn marhnút við Ísland? Þetta er lykillinn að því að Evrópusambandið hafi einhvern áhuga á að Ísland komi þar inn, þessi drusluþjóð í þeirra augum sem þeir sýna dónaskap, lítilsvirðingu og gefa frat í. Svo sitja hv. stjórnarsinnar, margir, með sparisvip og fínar slæður og láta þetta yfir sig ganga og segja ekki eitt einasta orð, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Ertu að tala um Pétur Blöndal?)

Virðulegi forseti. Ef Bretar og Hollendingar hefðu sannfærandi rök fyrir skuldsetningu Íslendinga, hvað hefðu þeir þá gert? Ef þeir hefðu haft sannfærandi rök hefðu þeir rætt við Íslendinga eða fallist á að málið færi fyrir dómstóla. Af hverju gera þeir það ekki? Þeir vita upp á sig skömmina. Þeir vita að þeir vilja fórna Íslandi í þágu mistaka í regluverki Evrópusambandsins. Þess vegna skiptir öllu máli að þessi samningur gangi ekki eftir. Það verður að byrja upp á nýtt og það verður að taka tíma í það og fá á hreint um hvað er verið að tala, virðulegi forseti.