138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:56]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru engin dæmi um slíka stöðu í sögu Evrópu síðustu 100 ár, engin dæmi, þar sem þjóðir hafa safnast saman til að kúga eina þjóð. Í stríðsuppgjöri og rekstri voru samningar milli sjálfstæðra þjóða en ekki að „búkett“ þjóða sópaði sér gegn einni þjóð. Það eru engin dæmi þess, ekki einu sinni í Austur-Evrópu.

Íslensk stjórnvöld, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hafa gjörsamlega brugðist í öllu er lýtur að samskiptum við erlenda aðila, nánast öllu. Þetta hefur verið fúsk, þetta hefur verið tilviljanakennt, geðþóttaákvarðanir og ekki gengið til verka nema í einhverjum spjallklúbbsstíl. Það hefur ekkert verið sótt á NATO, ekkert með formlegum hætti á Norðurlöndin nema í einhverjum tölvupóstum og bréfum sem eru bara hlægileg.

Auðvitað eigum við til að mynda einn leik eftir. Við fórum sneypuför, Íslendingar, fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Nú ættum við að fara fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og kæra Breta og Hollendinga fyrir að ráðast á sjálfstæði Íslands í beinu stríði til að ná áhrifum og völdum í landinu. Hvað er það annað en stríð? Efnahagslegt stríð, veraldlegt stríð, það er enginn munur á því. Þetta er spurning um sjálfstæði lands. Við eigum að safnast saman og kæra þessar þjóðir fyrir árás á Ísland, yfirlýsingu um stríð sem við verðum að verjast. Það verður að hugsa stórt og þora að gera hlutina og vera ekki með hangandi hendi í því sem þarf að gera.