138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kjarnyrta ræðu sem ég geri ráð fyrir að margir Íslendingar skilji mjög vel. Það er kannski stundum skortur á því þegar menn tala of flúrað mál. En hv. þingmaður spurði: Vill ríkisstjórn Íslands að landið verði efnahagsleg nýlenda Breta og Hollendinga? Svo sagði hann: Þeir afgreiða málið blint og galið.

Ég held að ríkisstjórnin vilji ekki að Ísland verði efnahagsleg nýlenda Breta og Hollendinga. Ég held hins vegar, frú forseti, að hún átti sig ekki á því að sú staða gæti komið upp að það gerðist. Auðvitað getur það líka gerst að allt verði í blóma. Ég held líka að margir hv. þingmenn sem standa frammi fyrir þessum vanda hreinlega „meiki“ það ekki, svo ég sletti ensku. Þeir þola ekki álagið, þeir verða að gera eitthvað og segja að best sé að skilja þetta eftir fyrir aftan sig og halda áfram. Svo gleymist þetta bara. En málið vex þeim yfir höfuð, verður fyrir aftan þá, það hverfur ekki. Þessi vandi hverfur ekki þótt þeir láti hann fyrir aftan sig og telji sig búna að afgreiða málið. Þetta er svipað og í síðari heimsstyrjöld þegar Þjóðverjar trúðu á „Wunderwaffe“, nokkuð sem kæmi á síðasta augnabliki og bjargaði þeim.

Hv. þingmaður sagði að við ættum að segja okkur úr NATO. En mig langar til að spyrja hann: Af hverjum skyldum við ekki bera fram tillögu í NATO um að vísa Bretum úr NATO? Þeir réðust á Ísland með hryðjuverkalögunum. Þeir réðust á Ísland með því að keyra íslensku bankana í þrot. Bresk stjórnvöld ollu áhlaupi á íslensku bankana. Þeir fóru í efnahagslegt stríð við Ísland og þegar þjóðir í NATO fara í stríð hver gegn annarri á að vísa árásarþjóðinni út.