138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því sérstaklega að hér í salnum eru staddir þrír ef ekki fjórir þingmenn stjórnarmeirihlutans. (GuðbH: Miklu fleiri en það.) Hér inni í þingsal, það eru reyndar einhverjir fleiri í hliðarherbergjum. En það segir mér það að umræðan er farin að skila árangri og mér finnst ég ekki lengur horfa á jafntóm andlit og í upphafi hennar. Mér finnst eins og stjórnarmeirihlutinn sé að hlusta og einstaka sinnum finnst mér hann taka undir með því að kinka kolli yfir því sem við erum að segja í ræðustól. Þetta segir mér að við þurfum að halda áfram að ræða þetta mikilvæga mál vegna þess að á einhverjum tímapunkti hlýtur að koma að því að stjórnarmeirihlutinn hafi hlustað nægilega og myndað sér skoðun á því sem hér er sagt þannig að hér úr ræðustól Alþingis geti farið fram málefnaleg umræða sem byggist fyrst og fremst á gagnrýnum vinnubrögðum, menn skoði málið og fari yfir það gagnrýnum augum.

Ég er ekki einu sinni búinn að fara yfir það nefndarálit sem ég skrifaði sem talsmaður 2. minni hluta í málinu og ég mun á eftir halda áfram að útskýra það sem þar kemur fram.

Hæstv. fjármálaráðherra kom í ræðustól áðan, sem ber að fagna, og fór með staðhæfingar sem mér fundust vera hálfundarlegar margar hverjar og mikið vanta inn í þá ræðu. Hann var á einhvern hátt að rökstyðja það að við ættum að taka tillit til meiri hlutans vegna þess að hann hefði í kjölfar hrunsins tekið tillit til einstakra mála og hleypt þeim í gegn. Ég var í minni hlutanum á þeim tíma og í kjölfar bankahrunsins fannst okkur í Framsóknarflokknum vel til þess vinnandi að reyna að liðka fyrir málum og þannig höfum við alltaf hagað málflutningi okkar. En það sem hæstv. fjármálaráðherra gleymdi að minnast á í ræðu sinni var að á þeim tíma sem hann fullyrti að hann hefði hjálpað ríkisstjórninni kom hann upp í ræðustól oftar en einu sinni og krafðist þess að sú ríkisstjórn færi frá. Hann lagði meira að segja fram vantraustsyfirlýsingu á þá ríkisstjórn og ég man ekki betur en að mönnum hafi stundum verið það heitt í hamsi að þeir hafi staðið fyrir framan púltið og jafnvel gengið að hæstv. forsætisráðherra og látið nokkur vel valin orð falla. Sú söguskýring að hér hafi allt leikið í lyndi á því einfaldlega ekki við rök að styðjast og ekki þarf annað en að minnast á mótmælin úti á Austurvelli en, eins og ég man það, þingmönnum Vinstri grænna fannst alveg jafnnotalegt að vera þar eins og hér inni í ræðustól.

En talandi um það að hér hafi meiri hlutinn lagt sig fram við að keyra mál í gegn og að stjórnarandstaðan sé að stoppa það þá get ég ekki verið alveg sammála vegna þess að þegar við framsóknarmenn ákváðum að verja minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í upphafi þessa árs þá gerðum við það með einu skilyrði, því að komið yrði á einhvern hátt til móts við heimili landsins. Það yrði tekið á skuldum heimilanna og um leið reynt með einum eða öðrum hætti að efla atvinnulífið. Þetta voru skilyrði sem að mínu viti voru algjörlega svikin. Það sem rökstyður það hvað mest er að Hagsmunasamtök heimilanna, sem hafa lagt sig öll fram um að veita ríkisstjórninni málefnalegt aðhald, gátu ekki setið á sér lengur og lögðu fram stríðsyfirlýsingu, hvorki meira né minna, til ríkisstjórnarinnar og hæstv. félagsmálaráðherra. Hæstv. félagsmálaráðherra, sem var hér áðan, ætti hvað helst að fylgjast með þessari umræðu vegna þess að þær skuldbindingar sem ríkisstjórnin mun væntanlega samþykkja á næstu dögum munu bitna fyrst og fremst á skjólstæðingum hans. Það verður úr minna að moða fyrir þann hóp. Ég held að engum blandist hugur um það. Það verður minna til skiptanna fyrir alla og það mun bitna á þeim sem hvað minnst mega sín í þessu samfélagi.

Hæstv. félagsmálaráðherra er kannski að springa á limminu, hver veit, en hann sá a.m.k. ástæðu til að benda á það alvöruleysi sem hefur ríkt hjá núverandi ríkisstjórn í því að takast á við vandann. Hann sagði í mögnuðu viðtali að honum hafi þótt aðhaldsstig í öðrum ráðuneytum en sínu eigin einkennast af miklu alvöruleysi. Ég verð bara að segja það, orðaði hann það svo í þessu viðtali. Ég velti því fyrir mér hvort hv. formaður fjárlaganefndar taki þessi orð ekki beint til sín, hvort þessum orðum hafi ekki með einum eða öðrum hætti verið beint að formanni fjárlaganefndar, þ.e. hvort alvöruleysið eigi við. Það væri ágætt ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson kæmi hér upp og útskýrði hvort hann teldi að sér vegið með þessum orðum eða hvort þingmenn meiri hlutans tækju einfaldlega undir orð félagsmálaráðherra.

Eins og ég kom inn á áðan þá á ég eftir að fara yfir margar blaðsíður í þessu áliti mínu. (GuðbH: Hvers vegna ertu ekki búinn að því?) Ég hef einfaldlega ekki haft tíma til þess, hv. formaður fjárlaganefndar, en ég get bent á að ég hef skrifað tæplega 50 blaðsíður í þessu máli þrátt fyrir að mér hafi verið settar mjög þröngar skorður í tíma og ég neyddur til að vinna ásamt starfsmönnum Alþingis langt, langt fram á nótt í sumar. En það tekur tíma að fara yfir allt það sem hér kemur fram og ég hef farið yfir hin lagalegu viðmið og rökstutt af hverju þeir fyrirvarar eru einfaldlega úti og þar með hef ég tekið undir með færustu lögmönnum þessarar þjóðar, lagaprófessorum úr Háskóla Íslands og fleiri mætum mönnum sem hafa stigið fram og bent á að fyrirvararnir séu að engu orðnir. En þetta er eitthvað sem meiri hlutinn vill ekki sætta sig við og heldur því fram með lokuð augun að fyrirvararnir séu enn þá inni og neitar að ræða það frekar, neitar að fara yfir það málefnalega en við skulum vona að þar verði breyting á.

Nú er mér naumur tími skammtaður. Ég á einfaldlega nokkrar sekúndur eftir af ræðutímanum. En í lokin langar mig til að benda á að í þessu máli hefur umræðan ekki staðið lengur en umræða Vinstri grænna og Samfylkingarinnar stóð um Ríkisútvarpið. Þeir töluðu í um 119 klukkustundir um Ríkisútvarpið. (Forseti hringir.) Maður veltir fyrir sér hvort málið sé mikilvægara, Icesave-málið eða breytingar á lögum um Ríkisútvarpið á sínum tíma.