138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, þetta var rætt í fjárlaganefnd í gær með lögspekingunum. Mér fannst skemmtilegt hvernig Sigurður Líndal lagaprófessor svaraði einmitt þessari spurningu. Það er þannig með lög og lagasetningu að það sem stendur í lögunum er í rauninni það sem segir til um hvað þau túlka, þ.e. hvert innihald þeirra er. Það á í rauninni ekki að ganga lengra. Sigurður Líndal orðaði þetta einhvern veginn svona „ef ég er læs“, og svo las hann og ég ætla að gera slíkt hið sama, með leyfi forseta:

„Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins,“ o.s.frv.

Það stendur einfaldlega skýrum stöfum að verið er að afsala dómsvaldinu til erlendra úrlausnaraðila. Á þetta benti Sigurður Líndal og ég túlkaði orð Ragnhildar Helgadóttur svo að hún væri honum hjartanlega sammála. En vandamálið er að þessir sérfræðingar fengu það stuttan tíma að þau treystu sér ekki til að leggja fram skriflegt álit um hvað þeim þætti vera rétt og rangt í málinu. Þegar Ragnhildur Helgadóttir (Forseti hringir.) var spurð að því hvort hún vildi svara því já eða nei hvort verið væri að brjóta stjórnarskrána, svaraði hún eftir því sem ég best man að hún væri ekki reiðubúin til að svara þeirri spurningu.