138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef veitt því athygli í kvöld að á staðnum eru ýmsir hv. þingmenn sem útlit er fyrir að hafi mikinn áhuga á að tjá sig um þetta mál, þeir hafa tjáð það með óbeinum hætti með frammíköllum og öðru slíku. Ég velti fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ekki sé hægt að beita ákvæði 56. gr. þingskapa sem hljóðar á þá leið að forseti gefi „þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast“ en þó „getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra, sem hlut á að máli, og framsögumann, svo og til þess að ræður með og móti málefni skiptist á …“ Ég vísa í þessa reglu þingskapa þannig að forseti hefur fulla heimild til að veita þeim hv. þingmönnum sem hér hafa kosið að tjá sig með frammíköllum tækifæri til að koma í ræðustól. Ég er alveg (Forseti hringir.) sannfærður um að við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar munum ekki gera athugasemd við það.