138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel að það hafi verið ómaklegt að áminna hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um það að víkja strax úr pontu með bjölluhljómnum, það var augljóst að þingmaðurinn heyrði ekki í bjöllunni. Ég skora á forseta að fara að þeim ráðum sem koma fram í bréfi bréfritara að fara varlega með bjölluhljóminn, það er nú ekki á bætandi í þessum sal ef menn fara líka að heyra illa það sem sagt er. Allt stefnir þetta að sama ósi, hvernig við vinnum hér í þinginu þá er það nú bara þannig að við stjórnarandstæðingar erum ekki að krefjast þess að fundi verði lokið, við erum ekki að krefjast þess að fundi verði hætt. Við erum einungis að leggja það til við virðulegan forseta að ákveðið verði hvenær við hættum, hvort við hættum klukkan fjögur, fimm, sex eða sjö, það verði tekin ákvörðun um það og svo bara vinnum við (Forseti hringir.) þangað til á að ljúka þessu. En ég get sagt það, frú forseti, að þetta er ansi hávær bjalla.