138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að beina einni spurningu að hæstv. forseta, spurningu sem ég spurði hér fyrr í dag. Nú sýnist mér að til standi að halda næturfund fram á morgun, það liggur fyrir. Spurningin er þessi: Er þetta það sem við megum búast við hér á þinginu, að í hverju einasta máli sem við eigum eftir að fjalla um verði mælendaskráin tæmd án þess að menn fái hlé eða lögboðinn hvíldartíma, eða a.m.k. viðmið af almennum vinnumarkaði? Er þetta ný túlkun á þingskapalögunum eða breytingum á þeim eins og þau voru ákveðin hér á síðasta ári minnir mig? Ég bíð spenntur eftir að hæstv. forseti (Forseti hringir.) svari þeim spurningum. Og það glymur hátt í bjöllunni.