138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að ítreka beiðni mína frá því áðan, um að þessum fundi verði frestað. Ég hef ekki enn þá fengið svar við því. Þetta er orðinn langur fundur og langur dagur fram undan hjá mörgum þingmönnum. Ég leyfi mér líka að minna á það að virðing Alþingis sem stofnunar meðal þjóðarinnar er í lágmarki. Þessi 83 eða 87%, ég man nú ekki hvort var, sem telja Alþingi ekki virðulega stofnun. Það er svo sem allt í lagi að reyna að glata algjörlega þeim 13% sem eftir eru ef menn vilja það, en það er á ábyrgð stjórnenda þingsins að það gerist ekki. Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru hér við skipulag vinnu á Alþingi Íslendinga eru til skammar og ekki til þess fallin að auka virðingu þingsins.