138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat ekki á þingi þegar öryrkjamálið var í gangi og umræður urðu um það. Ég man hins vegar töluvert eftir því að hafa fylgst með bæði umræðum og hvernig mál þróuðust í því. Ég verð því miður að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki sagt til um það hvernig við eigum að komast að því hvernig stjórnarþingmenn hugsa eða hvað þeir ætlast fyrir. Ég er svipað spenntur yfir því og hv. þingmaður. En það er vitanlega eðlilegt að kalla eftir því að stjórnarþingmenn fjalli um þetta mál því að hér hefur stjórnarþingmaður bent á að það vanti eitthvað nýtt inn í umræðuna og það hlýtur þá að kalla á að þessir ágætu þingmenn leggi eitthvað til málanna sem gæti kallað fram ný sjónarmið. Málið er svo gríðarlega stórt.

Hvað hv. þm. Ögmundur Jónasson og Þuríður Backman meintu og gerðu þegar þau fjölluðu um þetta mál get ég ekki útskýrt. Ég ber hins vegar fullt traust til þess að þeir þingmenn eins og aðrir muni taka skynsamlega ákvörðun þegar kemur að því að afgreiða þetta mál. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að íhuga vandlega stjórnarskrárþáttinn. Ég legg í vana minn ef ég skrifa undir eitthvað að standa við það og ég skrifaði undir þann eið að verja stjórnarskrána eða brjóta hana ekki og mun ekki gera það í þessu máli frekar en öðru.

Ég hvet alla þingmenn til að gera slíkt hið sama og hvet í raun frú forseta til að brýna það fyrir þingmönnum úr forsetastól að virða stjórnarskrána.