138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem ég vildi nefna. Annars vegar að það hefur heyrst endurómur af því úr hliðarherbergi að upplýsingar hafi komið fram á vettvangi fjárlaganefndar sem eigi erindi inn í þingsalinn. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. forseti geti ekki nýtt heimild í 56. gr. þingskapa til að hliðra til á mælendaskrá þannig að greitt sé fyrir því að þessar upplýsingar sem fram hafa komið í fjárlaganefnd geti komið inn í þingsalinn.

Hitt atriðið sem ég vildi spyrja um er svolítið annars eðlis en það er hvort fundur Alþingis sé ekki opinn núna. Mér bárust af því tíðindi að einhverjir borgarar hefðu haft hug á að koma á þingfund og fylgjast með af pöllum en komu að lokuðum dyrum þannig að ég vildi spyrja hvort fundinum hefði verið lokað.