138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það væri í sjálfu sér forvitnilegt að fá að vita frá hv. þingmönnum sem leiða þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna hversu lengi þeir hyggjast tala og endurtaka mál án þess að bæta miklu við umræðuna. Ef það hefur farið fram hjá þeim, eða þeir hafa ekki haft tíma til að ræða við þá sem eru í fjárlaganefnd um það sem þar fer fram, var óskað eftir að fjárlaganefnd tæki fyrir þetta álitamál varðandi stjórnarskrána og það var gert með því að kalla til fjóra lögfræðinga eftir að hafa skrifað þeim og gefið þeim þrjá daga til að undirbúa svörin. (Gripið fram í: Um fundarstjórn forseta.)

Ég er að skýra út fyrir hæstv. forseta varðandi þær upplýsingar sem legið hafa fyrir og hafa ekki komist til skila, einfaldlega vegna þess að hér hefur verið kallað eftir því. Ég ætla þá að leyfa mér að skýra fyrir hæstv. forseta að hingað komu fjórir lögfræðingar. Þar af var einn sem hafði óskað eftir því að vekja athygli á því að hann efaðist um að Icesave-málið stæðist stjórnarskrána. Hinir þrír töldu allir að þetta væri ekki stjórnarskrárbrot (Forseti hringir.) og það væri engin ástæða til að kalla eftir greinargerð um málið. Þannig er staða (Forseti hringir.) málsins fyrir þá sem hér eru en ég kalla eftir upplýsingum um hversu lengi menn ætla að halda áfram að bæta engu við umræðuna.