138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég spurði fyrir skömmu hvort fundurinn væri lokaður eða opinn vegna þess að mér barst til eyrna að almennum borgurum hefði verið meinaður aðgangur að þinghúsinu til að fylgjast með þingfundum ofan af áheyrendapallinum. Samkvæmt 69. gr. þingskapa er gert ráð fyrir að þingfundir séu haldnir í heyranda hljóði nema annað sé sérstaklega ákveðið.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna var að þegar fjallað er um mál eins og stjórnarskrármál er auðvitað upplýsandi að heyra sjónarmið eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom fram með áðan, um að nafngreindir lögfræðingar og stjórnskipunarfræðingar hefðu ekki talið ástæðu til að hafa áhyggjur af stjórnarskrárþættinum. Lykilatriði í þessu máli er hins vegar að heyra hvaða rökstuðning þeir færa fram af því að við höfum séð og lesið rökstuðning fyrir því að ástæða sé til að hafa áhyggjur af stjórnarskrárþættinum. (Forseti hringir.) Ef við eigum að geta metið þetta mál verðum við að fá gagnrökin.