138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég heyrði mál hv. formanns fjárlaganefndar áðan, Guðbjarts Hannessonar, þar sem hann flutti munnlega skýrslu af fundi nefndarinnar. Mér finnst mjög brýnt, herra forseti, að komið verði með nefndarálit um þennan fund, þá gesti sem þangað komu og þær skoðanir sem þeir höfðu. Mér finnst ótækt að ekki sé tekið fram hvað hver sagði og hvaða skoðanir þeir höfðu, heldur sé bara munnlegur flutningur formanns nefndarinnar látinn duga. Ég legg til að þessi ágæta nefnd hittist í fyrramálið eins og fleiri nefndir kl. hálfníu og semji nefndarálit og taki málið út, þ.e. ef þingfundi verður þá lokið. Ég hef sjálfur ekkert á móti framhaldi þingfundar því að ég á eftir að tala heilmikið.