138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa upp úr þingræðu sem var haldin af sama tilefni:

„Herra forseti. Það er ekki nokkurt vit í stjórn þingsins. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að verða við sanngjörnum og eðlilegum óskum sem fram hafa komið um að þessum fundi verði frestað meðan forseti þingsins og formenn þingflokka ráðslaga um hvernig þinghaldinu á að vinda fram. Það vill svo til að í fyrramálið klukkan 8.15 verða fundir í þeim tveimur nefndum sem fjalla um málið sem hér er á dagskrá. Það mundi sannarlega greiða fyrir þingstörfunum ef þessum fundi yrði lokið fljótlega þannig að menn geti lagst til hvíldar og búið sig undir þá fundi sem verða haldnir snemma í fyrramálið. Ég var á fundi snemma í morgun og á að vera á öðrum fundi sem boðaður er í fyrramálið klukkan hálfníu. Ég set fram þá kröfu að það verði a.m.k. reynt að virða lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segir í 53. gr., með leyfi forseta:

„Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.“ […]

Hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við göngum lengra en lög heimila. Við erum að bjóða fram að fá einungis fimm til sex tíma hvíld áður en við mætum (Forseti hringir.) til nefndastarfa.“

Allt þetta á við það sama (Forseti hringir.) og hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) þegar hún hélt þessa ræðu nema við náðum aldrei fimm tímunum jafnvel þótt við mundum sofna (Forseti hringir.) í sætunum okkar, virðulegi forseti, og fara (Forseti hringir.) þá beint á nefndafundi í kjölfarið.