138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Áður en ég sný mér að meginmáli ræðu minnar get ég ekki orða bundist um þá fundarstjórn sem við höfum orðið vitni að í kvöld og síðustu mínútur. Af hálfu forseta Alþingis hefur verið ófrávíkjanleg regla, að mati forseta, að þegar menn gera athugasemd við fundarstjórn forseta og biðja um orðið til þess skuli þeir halda sig við það efni. Eru frægar uppákomur í þinginu þar sem haldnir hafa verið heilir konsertar á bjölluna vegna þess að hæstv. forseta hefur ekki þótt menn vera á nægilega réttri línu hvað það varðaði. Þess vegna hlýtur að vekja nokkra furðu og umhugsun, og mun vekja umræðu í framhaldinu, þegar forseti ákveður um miðja nótt að undir liðnum um fundarstjórn forseta geti komið fram ræða sem snýr ekkert að fundarstjórn forseta. Þetta mun væntanlega móta störfin í þinginu í framhaldinu. Forseti þingsins getur ekki með nokkru móti gert slíkar undanþágur og ætlast til þess að menn taki ekki eftir þeim. Að sjálfsögðu mun þetta gilda fyrir aðra hv. þingmenn en ekki bara þann eina sem kom upp áðan.

Gott og vel, það sem ég vildi ræða núna er tvennt. Það eru annars vegar þær áhyggjur sem við margir hv. þingmenn höfum af því ef kemur til þess að við samþykkjum þetta frumvarp og það verður að lögum með því fyrirkomulagi sem upp er sett hvað varðar þá fyrirvara sem settir voru í lög frá Alþingi í ágúst sl. Þeim fyrirvörum var ætlað það hlutverk að mæta þeirri hættu sem gæti komið upp ef á Íslandi væri lítill sem enginn hagvöxtur í langan tíma og þá væru ekki á sama tíma lagðar þungar byrðar á þjóðarbúið, greiðslur til erlendra aðila í erlendri mynt. Nú heyrast hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar segja: Ja, þetta er í lagi eins og um er búið í þessu frumvarpi. vegna þess að menn telja ólíklegt að þannig muni reyna á þetta ákvæði að það verði til skaða fyrir Ísland, með öðrum orðum sé ólíklegt að aðstæður í efnahagslífinu verði með þeim hætti að það muni reyna á slíka fyrirvara. Ég verð að segja, herra forseti, að mér þykir frekar afleitt að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar skuli nálgast málið með þessum hætti.

Nú hafa menn rætt töluvert mikið að undanförnu þau örlög efnahagslífs sem Japan hefur mátt búa við og þola á undanförnum áratugum. Hvað kom fyrir í Japan? Þar eru nefnilega atburðir sem ættu að vera okkur Íslendingum nokkuð þekktir og við hljótum að hugsa til, fasteignir hækkuðu upp úr öllu valdi og skuldaaukning í hagkerfinu varð alveg gríðarleg þannig að bankakerfi Japans riðaði til falls. Þessar aðstæður eru ekki svo ólíkar þeim sem hér urðu. Niðurstaðan í Japan varð sú að viðbrögð japanskra stjórnvalda voru ekki betri en svo að þau sátu áfram uppi með vandann því að skuldirnar lágu allar áfram á japönsku bankakerfi og japönsku efnahagslífi sem gerði það að verkum að það varð lítill sem enginn hagvöxtur og svo varð verðhjöðnun. Enn á ný fáum við þær fréttir frá Japan að þeir standi frammi fyrir nákvæmlega sama vandamáli og þeir gerðu á árunum 1990–2000. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga. Sú þróun kann vel að eiga sér stað hér að við lendum í vandamálum sömu tegundar og Japanir lentu í. Það er einmitt þess vegna sem var svo mikilvægt að við Íslendingar settum ákveðna fyrirvara í lögin í ágúst sl. til þess að verja okkur fyrir þessu. Þetta var mikilvægt. Ég get ekki séð það fyrir mér að nokkur hv. þingmaður eða hæstv. ráðherra, sama hversu mikla reynslu þeir hafa annars af störfum á Alþingi, geti ábyrgst það gagnvart íslenskri þjóð að svona muni ekki fara, enda kaupa menn sér ekki tryggingar vegna þess að þeir séu algjörlega sannfærðir um að það brenni hjá þeim eða það fari illa. Menn vilja kaupa slíkar tryggingar ef svo illa skyldi fara. Sú hætta er uppi hvað varðar íslenskt efnahagslíf, því miður, að hér verði til margra ára og jafnvel áratuga lítill sem enginn hagvöxtur. Við skulum ekki blekkja okkur sjálf með því að segja að það muni aldrei gerast hér. Ég held að það væri hollt fyrir þá sem bera þetta mál upp á Alþingi að velta vel fyrir sér hvers vegna þeir eru svo sannfærðir eins og virðist koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu að það sé mjög ólíklegt að það muni reyna á slíka fyrirvara. Ég verð að leyfa mér að segja eins og er að þá eru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar auðvitað að gefa sér að við lendum t.d. ekki í þeim vanda sem Japanir lentu í. Þó eru ýmis einkenni og orsakir þess vanda sem Japan lenti í þau sömu og voru á Íslandi. Þó skal því haldið til haga að það sem hjálpar okkur í því máli er lágt gengi íslensku krónunnar. Það hjálpar í þessu máli.

Svo er hitt sem ég vildi gera að umræðuefni, herra forseti: Það sem svíður svo í þessu máli og gerir það svo óbærilegt fyrir okkur Íslendinga er að við segjum sjálf í lagatextanum eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Með öðrum orðum segjum við að við trúum því að við eigum ekki að borga þetta og okkur beri ekki skylda til þess. En við ætlum okkur samt sem áður að borga og við ætlum að borga hverja einustu krónu. Það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra og margra hv. stjórnarþingmanna sem þó hafa tjáð sig um málið að við eigum ekki annarra kosta völ, það sé farið fram með þvílíku offorsi gegn okkur að við verðum að borga. Gott og vel, það er sá málatilbúnaður sem blasir við okkur sem segir mér auðvitað að ástæðan fyrir því að við föllumst á þetta er sú að við teljum okkur ekki geta staðið gegn því ofbeldi sem er verið að beita okkur. Þá hlýtur maður að spyrja hvað verði um fullveldi þjóðarinnar við þessar aðstæður. Þá hlýtur maður að spyrja sig hvort það teljist ekki ákveðin skerðing á fullveldi þjóðarinnar að hún þurfi að sætta sig við þetta þótt hún sé samt sem áður þeirrar skoðunar að henni beri engin skylda til þess. Áhrifin af þessu, verði þetta samþykkt, eru þau að við verðum í raun og sanni skattgreiðendur til Stóra-Bretlands og Hollands. Það eru áhrifin af því sem liggur á borðinu fyrir framan okkur.

Þegar menn velta fyrir sér hvort það að gerast skattlenda annars ríkis og gerast skattgreiðendur til annars ríkis káfi upp á fullveldið, það kann að vera að ég sé ekki sérfræðingur í fullveldishugtakinu og ábyggilega eru aðrir mér færari og fremri í því, hlýtur að vera einnar messu virði að fara ofan í það og kalla eftir ítarlegri greinargerð og meiri umfjöllun af hálfu nefndarinnar en þeirri sem birtist í því að formaður fjárlaganefndar, annars ágætur hv. þm. Guðbjartur Hannesson, komi upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að gera grein fyrir umræðum í nefndinni um það mikilvæga mál. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að við gerum þetta með öðrum hætti af því að það er augljóst í mínum huga að hér erum við að ræða mál sem, gangi það fram, gerir okkur Íslendinga að skattgreiðendum til þessara beggja þjóða. Við segjum að við eigum ekki og okkur beri ekki skylda til að borga þetta. Það kemur alveg skýrt og ljóst fram hjá okkur. Þess vegna hlýtur þetta að vera sárt fyrir okkur og ég veit að þetta er sárt fyrir hæstv. ráðherra, þetta er sárt fyrir alla hv. þingmenn. Engum er þetta létt verk en þetta er staðan og þess vegna geta menn ekki látið það fara í taugarnar á sér eða orðið hissa á því þó að við hv. þingmenn ræðum þetta mál og viljum kalla eftir öllum mögulegum upplýsingu um það áður en við göngum til (Forseti hringir.) atkvæðagreiðslu.