138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar varðandi stjórnarskrána var athyglisvert og ég verð bara að viðurkenna það, herra forseti, að ég var búinn að gleyma því að þetta bréf hefði verið ritað til Hæstaréttar. Ég vil því velta því hér upp hvort slíkt sé hugsanlegt og eigi einnig við í þessu máli eða hvort einhver önnur leið sé til að botn fáist í þessar vangaveltur, því eins og hv. þingmaður benti á er þetta ekki í fyrsta sinn og trúlega ekki í síðasta sinn sem vangaveltur sem þessar koma upp hér á Alþingi og því er ágætt að hafa einhver fordæmi fyrir því hvernig bregðast eigi við.

Það sem mig langaði til að koma inn á í þessu seinna andsvari eru greiðslurnar sem við munum þurfa að inna af hendi. Samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir er ljóst að við munum greiða hverja einustu krónu sem á okkur kann að falla með vöxtum og ef við reynum að skyggnast inn í framtíðina sjáum við ekki hvenær það tekur enda. Því vil ég velta því upp við hv. þingmann hvort þeir fyrirvarar sem við samþykktum í ágúst, hvort ekki hafi legið einhver ákveðin ástæða að baki því að þeir voru með því formi sem þeir voru. Það er rétt að vera sanngjarn í því að sá sem hér stendur, herra forseti, gat ekki hugsað sér að samþykkja málið eins og það lá fyrir vegna þess að ég taldi það ekki hafa gengið nógu langt, en það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu nær að mínu viti enn þá skemur. Ég vil því hvetja hv. þingmann til þess að (Forseti hringir.) fara hér aðeins yfir fyrirvarana.