138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir röggsama fundarstjórn klukkan tíu mínútur yfir fjögur að morgni, það er mikilvægt að vel sé haldið á spöðunum hér.

Ég bar fram tvær spurningar áðan til hæstv. forseta. Mér leikur forvitni á að vita það, herra forseti, sem ég held að sé ekki á færi neins annars en þínu að svara, hversu margir starfsmenn þingsins eru við störf með okkur í dag. Ég tel það vitanlega ekki eftir mér að vera hér að fjalla um þetta mikilvæga mál. Ég sakna þess vitanlega eins og aðrir að fleiri stjórnarþingmenn skuli ekki taka þátt í umræðunni til þess að gefa henni meira vægi og svara þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram. Ég spyr um þetta, herra forseti.