138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hugsa til þess að hæstv. fjármálaráðherra kom hér upp í dag og innihald ræðu hans var nokkurn veginn svona: Við vorum svo rosalega lítið í því að tefja fyrir nokkrum einasta hlut og sanngirni okkar var slík að annað eins hefur ekki sést. Af hverju í ósköpunum viljið þið ræða þetta vanbúna mál sem gæti komið þjóðinni í alveg gríðarlegt klandur?

Á sama tíma leyfði ég mér áðan að lesa úr ræðu núverandi hæstv. forsætisráðherra þegar aðstæður voru svipaðar. Þær eru ekki þannig lengur vegna þess að það er tómt mál að tala um að við náum þeirri hvíld sem menn fóru fram á hér. Þar voru þau orð höfð uppi að það væri ekki nokkurt einasta vit í stjórn þingsins. Hér hafa menn komið hvað eftir annað með hógværar fyrirspurnir (Forseti hringir.) til virðulegs forseta og (Forseti hringir.) mér fyndist það lágmarkskurteisi ef virðulegur forseti vildi svara þeim kurteislegu fyrirspurnum.