138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að koma inn á þetta sama og síðasti hv. þingmaður. Við eigum eftir að afgreiða hérna mjög þung og mikil frumvörp um fjárlögin, bæði tekjuliðina og síðan gjaldaliðina, og það þarf að vinna mjög hratt og vel. Þegar menn verða varir við ákveðinn hroka úr forsetastóli — nú er ég ekki að ásaka núverandi forseta, heldur hvernig forsetaembættið hefur komið fram við þingmenn í kvöld og nótt — er hættan sú að það verði ekki sérstaklega mikil samningslipurð þegar kemur að því að afgreiða mikil mál. Menn gætu jafnvel farið að ræða þau mjög ítarlega, enda virkilega mikið tilefni til, herra forseti, að ræða t.d. skattálögurnar á fyrirtækin og landslýð ítarlega eða þá skerðingar á fæðingarorlofi og annað slíkt sem menn hafa verið að ræða. Ég legg til að hæstv. forseti (Forseti hringir.) sýni þingmönnum ákveðið umburðarlyndi í þessu.