138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. fjármálaráðherra komi í andsvar við mig og ræði þessi mál. Hins vegar verð ég gríðarlega döpur í mínu hjarta þegar hæstv. fjármálaráðherra lýsir því yfir að það hafi eingöngu verið af greiðasemi við stjórnarandstöðuþingmenn sem farið var að athuga og kanna og taka viðtöl við þá aðila sem höfðu lýst efasemdum um að þetta frumvarp stæðist stjórnarskrána. Ég vil ekki trúa öðru en að þarna hafi hæstv. fjármálaráðherra mismælt sig. Við hljótum öll sem sitjum á Alþingi, við höfum öll undirritað eið að stjórnarskránni, við hljótum öll að vera fullviss um það í hjarta okkar að við eigum að beita öllum okkar kröftum og nýta hvert einasta tækifæri til að kanna það þegar svona alvarlegar ásakanir koma fram að þær eigi ekki við rök að styðjast og að það eigi ekki að styðjast við þau rök að það sé gert af greiðasemi við stjórnarandstöðuna.

Við hljótum öll sem hér sitjum og líka hæstv. fjármálaráðherra, sem hefur langa þingreynslu og ég ber mikla virðingu fyrir hans reynslu, að hafa önnur sjónarmið í huga þegar við erum að fjalla um sjálfa stjórnarskrána. Hæstv. forseti. Ég ítreka enn og aftur að ég trúi ekki öðru en hæstv. fjármálaráðherra hafi mismælt sig og ég vona að það verði leiðrétt í seinna andsvari.

Varðandi það að þetta sé allt misskilningur prófessorsins Sigurðar Líndals á því hvernig lagaákvæði varðandi lagalegu stöðuna sé túlkað, þá er það einfaldlega skoðun hæstv. ráðherra. Og hvað er því til fyrirstöðu, hæstv. forseti, að sú skoðun og þá væntanlega allra stjórnarliða sé rökstudd á einhvern hátt? Hvers vegna getur ekki einhver fyrir hönd þeirra sem stýra málum í fjárlaganefnd komið í pontuna og farið yfir þennan rökstuðning? Væri það of mikil greiðasemi við stjórnarandstöðuna að gera það? (Gripið fram í.) Væri það of mikil greiðasemi? Við erum í miðri umræðu sem er öll á villigötum að mati hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Er (Forseti hringir.) honum ekki í lófa lagið að koma í smáræðu og útskýra þetta fyrir okkur?