138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem upp til að það sé alveg skýrt að ég geri engar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Mér finnst hún góð og við hæfi og mér finnst mjög mikilvægt að … (Gripið fram í.) Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta og ef hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir gæti hætt að gjamma fram í þá væri kannski hægt að tala úr ræðustóli Alþingis, hinu háa Alþingis sem hv. þingmenn minni hlutans telja sig umkomna að halda í gíslingu dögum og vikum saman. (Gripið fram í.) Hvað eru hv. þingmenn minni hlutans að gera? Þeir eru að tala þjóðina í þrot. (Gripið fram í.) Þeim er alveg sama þó að lánshæfiseinkunn Íslands fari í ruslflokk. Þeim er alveg sama þó ríkissjóður leggist á hliðina. Þeim er alveg sama hvernig hlutirnir fara hér, þeir hafa ekki sómakennd og ekki ábyrgðartilfinningu til að klára það sem þarf að klára og það þarf að klára þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)