138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið í allmörgum ræðum hlaðið miklu lofi á hvernig við höfum staðið að umræðunni um þetta Icesave-mál og ég skal játa að ég er í hópi þeirra sem þykir lofið fremur gott og vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessi fallegu orð sem fallið hafa í þessu sambandi. En vegna hæversku minnar vil ég segja að við í núverandi stjórnarandstöðu eigum hins vegar mjög margt eftir ólært og gætum farið í smiðju hæstv. forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra. Mér finnst engin ástæða til að halla neitt á þessa ágætu hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) sem kunna mjög mikið fyrir sér í þessum efnum, jafnvel svo mikið að frammíkallandinn úr iðnaðarráðuneytinu gæti lært af því líka.

Sannleikurinn er sá að við höfum verið að reyna að greiða fyrir þessari umræðu. Við höfum hvatt til þess að verið sé að ræða um efnahagsmálin af því að við erum ekki að kinoka okkur við því að ræða þessi mál. Stjórnarliðar þora ekki að ræða Icesave-málið og vilja ekki verða við þeirri ósk okkar að við getum tekið á dagskrá þau mál sem mestu máli skipta. Þeir vilja með öðrum orðum ekki ræða efnahagsmálin (Forseti hringir.) og þora ekki að ræða Icesave-málið.