138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki mikil reisn yfir þingstörfunum þessa sólarhringana. (Gripið fram í: … stjórninni?) Það er ekki svo, hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, að því sé einhliða stjórnað af stjórnarliðunum. Það er áreiðanlega rétt að það er hægt að gagnrýna stjórnarflokkana og ríkisstjórnina fyrir ýmislegt í þeirra störfum m.a. í þingsal og stjórnarandstaðan hefur rétt til að gera það. En stjórnarandstaðan verður líka að þola að það sé andað á hana ef öðrum mislíkar hvernig hún fer með vald sitt í þingsalnum.

Stjórnarliðar reyndu á mánudaginn að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um þingstörfin á mánudagskvöld. Við gerðum það í góðri trú og héldum satt að segja að það mundi leiða til einhvers samkomulags. Á sama tíma sátu stjórnarandstöðuflokkarnir og bjuggu til sína stundaskrá (Gripið fram í.) um það hvernig þeir ætluðu að skipta með sér verkum. Það er misbeiting á þingskapalögunum, það er (Forseti hringir.) misbeiting á andsvararéttinum og það er misfarið (Forseti hringir.) með liðinn um fundarstjórn forseta, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að forsætisnefnd (Forseti hringir.) komi saman til fundar í dag og ræði þetta alvarlega mál (Forseti hringir.) sem hér er uppi.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að hér gilda tímamörk.)