138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á því að leiðrétta hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem hélt því fram að á sama tíma og mál voru rædd á mánudegi hefði verið unnið eitthvert excel-skjal. Það er hins vegar ljóst að þegar ríkisstjórnin ákvað að halda þinginu langt fram á nótt heilu næturnar, urðu menn augljóslega að skipuleggja vinnu sína, eins og raunar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson lagði til í gærkvöldi og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon á sínum tíma, eins og þekkt er. En rétt er þó að hafa í huga, eins og svo margir hafa bent á, hversu fáránlegt það er að halda því fram að þingið sé tekið í einhvers konar gíslingu því að við erum tilbúnir að hleypa inn hvaða máli sem ríkisstjórnin vill. En að sjálfsögðu þurfum við að ræða þetta Icesave-mál þangað til fyrir liggja allar þær upplýsingar sem á þarf að halda. Nú er ljóst að þær liggja ekki allar fyrir, til að mynda upplýsingar um skuldir ríkisins, grundvallarupplýsingar sem menn þurfa að hafa til að geta tekið ákvörðun í þessu máli.