138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ekki við fundarstjórn forseta að sakast hér en engu að síður er auðvitað ömurlegt að sjá þann svip sem birtist á þjóðþinginu í boði stjórnarandstöðunnar. Hér nær umræða um 1. dagskrármál ekki einu sinni að hefjast, ekki einn ræðumaður gerir svo mikið sem tilraun til að tala efnislega um málið áður en brostin er á hálftíma til þriggja kortera fullkomlega tilefnislaus tímasóunarumræða um fundarstjórn forseta sem ekkert er við að athuga, ekkert.

Stjórnarandstaðan hefur kvartað undan því að stjórnarliðar og ráðherrar hafi ekki tekið mikinn þátt í umræðunni. Það skyldi ekki vera vegna þess að þetta er löngu hætt að vera umræða, þessi skrípaleikur (VigH: Rangt.) sem hér er í gangi í boði stjórnarandstöðunnar? (REÁ: … skrípaleikur.) Ég er reyndar sammála því að þetta er ekki málþóf, þetta er skrípaleikur því að obbi tímans fer í tilgangslausar umræður um fundarstjórn forseta og í andsvör þar sem menn eru í andsvörum við sjálfa sig. (Forseti hringir.) Það er misnotkun á þingsköpunum, (Forseti hringir.) þetta er ábyrgðarlaus skrípaleikur sem fer að valda þjóðinni (Forseti hringir.) verulegum skaða. En fyrst og fremst er þetta þinginu til skammar. (Gripið fram í.)