138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi nýjar upplýsingar um hækkun á vöxtum Norræna fjárfestingarbankans þá er það afskaplega eðlilegt. Þeir eru búnir að tapa óhemjufé á Íslandi og þeir eru að reyna að ná því upp með því að hækka vextina vegna þess að Ísland er áhætta. Það er alveg burt séð frá því máli sem við ræðum hér. Ég er ekki heldur sammála því mati Seðlabankans að samþykkt Icesave breyti einhverju um lánshæfismat Íslands. Lánshæfisfyrirtækin vita fyrir löngu síðan af þessu fyrirbæri og þau reikna með því að Íslendingar semji illa enda hafa þeir gert það hingað til og ef við semjum eitthvað betur þá muni lánshæfismatið batna. En það mun varla versna úr þessu og þó að það versnaði niður í ruslbréf þá mundu vextirnir kannski hækka í eitt eða tvö ár þangað til lánshæfismatið batnar aftur, og svo er það þannig að aðilar á ruslbréfamarkaði fá alltaf pening. Þar er alltaf nóg framboð af fjármagni.