138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hingað til verið ég sjálfur en ekki heil stjórnarandstaða. Ég hef hingað til talað fyrir mig sjálfan, hvort sem ég hef verið í stjórnarliði eða í stjórnarandstöðu. Ég ætla að biðja hv. þingmann að tala við mig prívat og persónulega en ekki við mig sem stjórnarandstöðu.

Varðandi það að þetta sé ábyrgðarlaust. Mér finnst það vera mjög ábyrgðarlaust, frú forseti, að samþykkja Icesave. Mér finnst það vera svo svakalega ábyrgðarlaust af því að við munum ekki eiga gjaldeyri til að borga þetta. Það hefur enginn getað sýnt mér fram á það að við slæmar aðstæður sem gætu komið upp, og ég á eftir að fara í áhættugreiningu í minni þriðju, fjórðu eða fimmtu ræðu (Gripið fram í: Er þinn flokkur í lagi?) — já, hann er í lagi í skamman tíma, (Gripið fram í: Tvö ár.) já, það er betra að hafa hann heldur en fá ekki lán. Ég á því eftir að fara í gegnum áhættugreininguna á Icesave-samkomulaginu sem ég geri væntanlega í þriðju eða fjórðu ræðu minni og þá mun hv. þingmaður vonandi hlusta vel.