138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er engin ástæða til að lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Íslenskt atvinnulíf er óhemjusterkt og útflutningsgreinar Íslands eru mjög sterkar. Krónan hefur hjálpað okkur með því að lækka laun allra landsmanna þannig að ekki er nokkur einasta ástæða til að lýsa yfir þjóðargjaldþroti. Hins vegar er ríkisstjórnin núna að fara í afskaplega óheppilegar aðgerðir, skattleggja fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur. Kannski snýr hún af þeirri röngu leið og tekur upp hugmynd sjálfstæðismanna um að skattleggja séreignarsparnaðinn og hættir allri skattlagningu á heimili og fyrirtæki. Þá rís íslenskt atvinnulíf upp sem aldrei fyrr og þá munum við líklega getað borgað Icesave að fullu með þeim skilyrðum sem Alþingi samþykkti í sumar. En þetta er allt háð ákveðnum líkum. Og það að lenda í ruslbréfaflokki er betra en að fá ekki lán. Það er nefnilega þannig að lánveitendur meta alltaf lántakandann eftir öðrum þáttum en bara lánshæfismati.