138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar. Mig langaði til að endurtaka spurninguna — hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur vafalaust ekki haft tíma til að svara henni — um svigrúm til breytinga sem mér finnst gríðarlega mikilvægt upp á vinnuna sem fram undan er í nefndunum. Mér finnst það svolítið virðingarleysi við þá sem kalla á fyrir nefndirnar ef fyrir fram er búið að gefa sér að ekki verði tekið mark á orðum þeirra. Mig langaði að endurtaka þá spurningu hvort það sé svigrúm, hvort það hafi myndast einhvers konar svigrúm í öllum þeim umræðum sem verið hafa um þetta mál, og nú hafa komið margir nýir fletir og nýjar upplýsingar. Telur hv. þingmaður að hæstv. ríkisstjórn muni gefa þingheimi tækifæri til að koma með einhverjar breytingar á frumvarpinu sem fyrir liggur um þetta mál?