138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sumir eru að tengja Icesave-málið við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og það er alveg á hreinu að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja þá aðildarumsókn. Vel má vera að hæstv. forsætisráðherra hafi það í huga þegar hún segir að við verðum að samþykkja hvert einasta orð í þeim samningi sem Bretar og Hollendingar þvinguðu upp á okkur. En núna er þessi þvingun farin, hún er gersamlega farin. Ég tel t.d. að yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra í gær, um að við höfum sætt grímulausum ógnunum frá Evrópusambandinu, sé merki um það að ógnunin er farin því að slíkt segja menn ekki fyrr en þeir geta gert það. Það segir mér að þessi samningur var nauðungarsamningur og nauðungarsamningar gilda ekki.