138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nánast öll þau atriði sem ríkisstjórnin hefur nefnt sem ástæðu þess að það þyrfti að samþykkja þessa samninga — hvort sem mönnum líkar það betur eða verr eða hvort sem þeir telja sig skuldbundna til þess eða ekki — eru öll farin nema þeir reyna enn þá að halda því fram að þetta sé spurning um lánshæfismat ríkisins eins fáránlegt og það er að halda því fram að það að skuldbinda ríkið alveg gífurlega í erlendri mynt geti bætt lánshæfismat ríkisins. En ég velti því fyrir mér hvort þau séu fallin í sömu gildru og bankarnir lentu í þegar vandræði þeirra hófust að þeir fara í áróðursherferð og fara að hlusta á einhverja sem þeir fá til að segja sér það sem þeir vilja heyra. Þannig er það með þessa skýrslu Seðlabankans sem vitnað hefur verið í varðandi lánshæfismatið. Það gleymist hvernig hún kom til. Hún kom til vegna þess að forsætisráðherra bað um greinargerð til að styðja málflutning sinn í málinu og svo virðast menn vera farnir að trúa eigin spuna. Er þetta ekki hættuleg þróun og í samræmi við það sem bankarnir lentu í?