138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega fyrir þessa spurningu út af því að þessi hugmynd mín, sem hefur fengið ágætisundirtektir og bara mjög góðar undirtektir hjá minni hlutanum og jafnvel hjá sumum sem eru í meiri hlutanum, er einfaldlega strönduð á milli nefnda. Ég lagði þessa hugmynd fyrir, og við gerðum það öll í minni hlutanum í utanríkismálanefnd. Eftir að ég kom heim af NATO-þingi og hafði fengið tilboð frá breskum þingmönnum um aðstoð við að setja á fund með þingmönnum breska þingsins og þess íslenska sendi ég formlegt erindi til forsætisnefndar og þingflokksformanna. Þetta hefur hoppað á milli nefndanna og inni í utanríkismálanefnd en engin ákvörðun hefur verið tekin. Ég fékk þau viðbrögð sem hryggja mig að það þætti ekki gott að senda slíka nefnd út á meðan verið væri að fjalla um Icesave.

Í hjartans einlægni taldi ég aftur á móti að það mundi einmitt skipta sköpum ef við gætum farið og útskýrt þetta á mannamáli, á pólitísku máli, hvað þetta þýðir fyrir þjóðina. Ég hef ítrekað lent í þeirri stöðu að ræða við fólk alls staðar að úr heiminum, og sér í lagi frá þeim löndum sem við erum í einhvers konar efnahagslegu stríði við, og séð að fólk gerir sér almennt séð ekki grein fyrir hvað þetta eru gríðarlega miklar klyfjar fyrir þjóðina að bera og það vill ekki taka þátt í að leggja slíkar klyfjar á herðar þjóðarinnar þegar það heyrir hvernig það er og sér í lagi þegar maður útskýrir að við sem höfum barist gegn þessu erum ekki að segja að við viljum ekki standa við skuldbindingar okkar. Eðlilegast væri náttúrlega að allt yrði gert sem hægt er að gera til að ná í þessa peninga til þeirra sem stálu þeim því að það gleymist gjarnan að það voru menn sem stálu þessum peningum sem (Forseti hringir.) tilheyra ekki skattborgurum Íslendinga.