138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:55]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir spurningar hennar. Ég er sama spurningarmerkið og hv. þingmaður. Ég næ ekki að kíkja inn í innstu fylgsni þessara aðila sem sitja í ríkisstjórn. Þetta er hreint með ólíkindum hvernig málinu er komið. Ég vil t.d. minna á og benda á það sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði við atkvæðagreiðsluna í sumar, með leyfi forseta. Hann sagði:

„Í meðförum þingsins hefur sú ríkisábyrgð sem verið hefur til umfjöllunar lotið miklum og öflugum fyrirvörum sem við verðum síðan að fylgja eftir. Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

Fullvissu fyrir því. Þetta sagði hvorki meira né minna en hæstv. formaður fjárlaganefndar hér í sumar. Þess vegna er ég gáttuð á því að við skulum vera komin með þetta mál heim á nýjan leik frá þessari ríkisstjórn sem virðist ekki ráða við málið. Raunverulega dettur mér ekkert annað í hug ef ég á að beita þeirri hugsun sem hæstv. utanríkisráðherra að mig minnir beitti í sumar — var það ekki frjálsleg hugsun? (Gripið fram í: Skapandi.) Skapandi hugsun. Ef ég beiti henni nú á þessa ríkisstjórn held ég að þau hafi fyrst og fremst látið undan hótunum. Fyrirvararnir voru svo sterkir að þeim var ætlað að ná yfir fullveldisréttindin og náttúruauðlindirnar, svo við tölum nú ekki um Brussel-viðmiðin. Bretar og Hollendingar gátu náttúrlega ekki sætt sig við þetta því það var búið að taka tennurnar úr þeim samningi sem samninganefndin skrifaði undir í sumar. Þar með höfðu þeir ekki þetta allsherjarveð sem þeir voru búnir að koma inn í samninginn í náttúruauðlindum, landinu og legu þess og öllu því sem ég hef farið yfir í löngu máli. Nú er þetta komið í viðauka og þar með er það komið (Forseti hringir.) aftur inn í Icesave-samninginn þannig að hér erum við komin í hring.