138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu. Auðvitað eigum við að knýja fram nýfengin gögn ef þau eru til. Ég skil ekki hvers vegna verið er að leyna fjárveitingavaldið gögnum ef skjalapappírar eru til. Þingmenn geta alveg verið bundnir þeim trúnaði. Það er til leynimappa inni á nefndasviði sem þarf að skrifa undir ætli maður að komast í hana. Það er þá hægt að setja þessi leyniskjöl í þá leynimöppu úr því að hún er til.

Ég sagði í síðustu viku að við værum að fást við tvíhöfða þurs. Hér situr annars vegar mér á hægri hönd hæstv. forsætisráðherra og ber allt til baka það sem hæstv. fjármálaráðherra ber á borð fyrir þingið. Ég veit ekki hver er eiginlega sáttasemjarinn á þessum ríkisstjórnarfundum. Það er þó alla vega ræðupúlt á milli þeirra þegar þau sitja í þingsal. Þetta mál allt saman er að verða hreint með ólíkindum. Ef einhver gögn liggja enn þá að baki sem ekki má birta verður að koma á borð alþingismanna hvað er í þeim gögnum áður en þetta frumvarp verður samþykkt, sem verður að öllum líkindum. Mér heyrist að stjórnarliðar séu búnir að tryggja þann meiri hluta miðað við hvernig þeir láta hér í þinginu og hafa næturfundi og kvöldfundi eins og enginn sé morgundagurinn. Þá býð ég nú ekki í að þessi ríkisstjórn verði langlíf ef þjóðin þarf að sitja uppi með leyndarhjúp eina ferðina enn í þessu Icesave-máli.

Eina ferðina enn, ég minni á það. Það átti ekki að sýna okkur samninginn. Við erum búin að ræða hann í hálft ár og það er búið að benda á alla þá galla sem þessi samninganefnd kom með heim og hæstv. fjármálaráðherra skrifar undir. Fjármálaráðherra má ekki gleyma því hver fer með fjárveitingavaldið. Það er ekki framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvaldið heldur á pennanum en það er Alþingis að veita fjárveitingu og (Forseti hringir.) leggja til og samþykkja ríkisábyrgð.