138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Nú liggur þetta stóra mál fyrir þinginu. Afleiðingarnar geta orðið hrikalegar, á hvorn veginn sem það fer. Hæstv. forsætisráðherra boðar hér frostavetur ef frumvarpið verður ekki samþykkt. Grýla dagsins er kölluð Moody's og ku geta hent heilum þjóðum á haugana. Ég og ýmsir fleiri eru á því að það sé mun hættulegra að samþykkja frumvarpið en synja því. Ekki hefur verið sýnt fram á að við getum staðið undir þeirri skuldbindingu sem frumvarpið leggur til og mér finnst það hreinlega ekki heiðarlegt að ætla að taka á sig skuldbindingar sem við ráðum ekki við.

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkunum. Af hverju er þeim svona umhugað að þröngva þessu ljóta máli í gegnum þingið með þessum hætti?

Í kjölfar hruns eins og þess sem við upplifðum hér síðasta haust fylgir gríðarlegt vantraust og það hlýtur að vera eitt helsta og mikilvægasta hlutverk stjórnvalda að skapa samstöðu meðal þjóðarinnar. Það gerist ekki með því að takast á um mál eins og það sem við ræðum hér. Það gerist meðal annars með því að leiðrétta skuldir heimilanna, lækka vexti svo að fyrirtækin í landinu geti þrifist og veitt landsmönnum atvinnu og standa vörð um velferðarkerfið.

Í Icesave-málinu kristallast hrunið. Málið er eins og táknmynd fyrir þær hamfarir og þá erfiðleika sem við erum að ganga í gegnum. Icesave er kornið sem fyllti mælinn hjá þjóðinni, sundraði henni og brýtur niður þjóðarstoltið.

Herra forseti. Samstöðu er þörf. Við getum ef við viljum skapað hér bæði samstöðu og þjóðarsátt en það gerist ekki svona. Til þess þurfa allir að koma að borðinu. Við þurfum öll að vera samábyrg fyrir lúkningu málsins, sama með hvaða hætti það verður.

Fjármálaráðherra sem hefur ekki meiri hluta á þingi, eða í besta falli ótryggan meiri hluta, hefur ekki góða samningsstöðu á alþjóðavettvangi. Icesave á ekki að vera og má ekki vera einkamál stjórnarflokkanna, við verðum öll að bera ábyrgðina saman og finna lausn á vandanum saman.

Vilji þjóðarinnar er skýr. Nú hafa um 21.400 manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands á heimasíðu Indefence-samtakanna um að forseti Íslands staðfesti ekki lögin, verði þau samþykkt hér á Alþingi. Samkvæmt skoðanakönnunum eru um 70–75% þjóðarinnar á móti frumvarpinu um Icesave. Það er því alveg ljóst hvar vilji þorra Íslendinga liggur. Þjóðin kærir sig ekki um að taka á sig skuldir einkaaðila sem fóru of geyst.

En hver er ábyrgð okkar? Ber þjóðin sjálf virkilega ábyrgð á því hvernig fór? Hvar liggur ábyrgðin? Útrásarvíkingarnir voru vissulega afsprengi íslensks samfélags. Þeir gengu í íslenska skóla, ráku íslensk fyrirtæki og töluðu íslensku. Ísland var notað sem vörumerki úti í hinum stóra heimi, gæðastimpill og fullri ábyrgð lofað. Íslendingar voru flottastir og bestir, gæddir stórkostlegu víkingaeðli, fljótir að hugsa, græddu á tá og fingri. Enginn var okkur fremri, og þjóðin kóaði vissulega með. Að því leyti erum við flest öll sek í þessu máli.

En Íslendingar geta ekki tekið á sig ábyrgð á gölluðu regluverki Evrópusambandsins. Og við Íslendingar getum ekki heldur greitt Bretum og Hollendingum allt það fé sem þeir fara fram á. Við hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lékum okkur að tölum hér í gærkvöldi. Hann reiknaði það út að ef peningarnir sem við ættum að greiða vegna Icesave væru í handbæru fé, þúsundköllum, gætum við raðað þeim, hverjum á eftir öðrum og þeim mundu ná átta sinnum í kringum jörðina. Herra forseti, við getum ekki skapað slíka fjármuni í okkar litla hagkerfi, það er með öllu ógerlegt. Þess vegna smíðaði þingið fyrirvara við samninginn hér í sumar. Efnahagslegir fyrirvarar Alþingis gengu út á það að við myndum greiða það sem við gætum greitt. Þeir voru afar sanngjarnir, ekki satt. Við féllumst á að axla ábyrgð á því sem gerðist, þrátt fyrir að ekki væri sýnt fram á að okkur bæri lagaleg skylda til þess. Er hægt að bjóða betur? Ég held ekki.

Þann 28. ágúst sl. samþykkti þingið lög sem eru í gildi með þessum fyrirvara. Herra forseti, hvers vegna sameinumst við ekki um að láta lögin frá því í sumar standa. Herra forseti. Samstöðu er þörf.

Ég vil beita mér fyrir því að hér ríki vinnufriður og að við þingmenn náum samstöðu um lausn málsins.

Hvert er markmið okkar? Erum við ekki hér saman komin til að taka þátt í endurreisninni? Viljum við ekki öll að landið okkar rísi aftur úr sæ svo að mannlífið blómstri hér á ný? Ég veit ekki betur. Okkur greinir bara á um leiðirnar að því markmiði. Og lausnin við því er eiginlega að ákveða að finna saman lausn.

Herra forseti. Við verðum að hugsa lengra fram í tímann en venjan hefur verið á þessu landi. Hvernig viljum við sjá Ísland eftir 20 ár, 30 ár, 50 ár? Ég hef áhyggjur af því að hæstv. ríkisstjórn hugsi bara um næstu sjö ár — og hugsi sér gott til glóðarinnar í þessu svokallaða sjö ára skjóli. Og ég óttast að það muni verða notað til að brytja niður velferðarkerfið.

Herra forseti. Hvernig væri að við myndum ákveða að standa saman í þessu máli? Ef við slökum aðeins á og hugsum málið af yfirvegun er ljóst að allir Íslendingar eru hér á sama báti. Á okkur er ráðist. Það er alveg ljóst hvað Bretar og Hollendingar vilja. Staðan er erfið. Og þess vegna skiptir öllu að við stöndum saman vörð um þá fyrirvara sem hafa verið samþykktir og eru sanngjarnir.

Hæstv. ríkisstjórn var kosin á lýðræðislegan hátt. Stjórnarflokkarnir hlutu atkvæði meiri hluta kjósenda. Hún er ekki í öfundsverðri stöðu og það er hlutverk hennar að leiða okkur út úr þeim ógöngum sem við höfum ratað í.

En herra forseti, þegar hún ætlar að leiða okkur í ranga átt, beint til glötunar, ber þeim þingmönnum sem það skynja og skilja skylda til þess að reyna með öllum ráðum að stoppa þá vegferð. Og það erum við að reyna. Þess vegna stóð þingfundur hér til morguns. Hvað er að hér í þinginu, af hverju getum við ekki staðið saman? Af hverju eru þau stjórnmálaöfl sem hér skipa minni hlutann ekki höfð með í ráðum? Því getum við ekki ákveðið að lög sem Alþingi setti um fyrirvara á ríkisábyrgð gildi?

Herra forseti. Ég óska eftir samráði og samstarfi milli flokka hér á þingi. Samstöðu er þörf.