138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkra punkta varðandi Brussel-viðmiðin sem grundvallast raunar á efnahagslegum forsendum, eru efnahagslegs eðlis. Það hefur verið réttlætt að víkja frá Brussel-viðmiðunum á lagalegum forsendum í þessu frumvarpi þannig að ensk lög gildi um samninginn. Brussel-viðmiðin voru ekki talin nægilega skýr til að hægt væri að beita þeim við að túlka lánasamninginn í heild. Verið var að tala um einhliða rétt tryggingarsjóðs og íslenska ríkisins til að framlengja lánin og upptöku árlegs greiðslumats eins og við lögðum áherslu á varðandi efnahagslegu fyrirvarana. Þetta ætti að geta gert það að verkum að við getum endurreist fjármála- og efnahagskerfi okkar. En það virðist vera eins og ríkisstjórnin vilji túlka það sem svo að núverandi viðaukasamningar uppfylli þessi Brussel-viðmið jafnvel enn betur en áður. Ég vildi gjarnan vita hvort hv. þingmaður er sammála því að þau geri það betur og hvort fjárhagsleg staða íslenska ríkisins sé forsenda þess, af því að maður heyrir mjög gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) talar um (Forseti hringir.) efnahagslega stöðu ríkisins en ekki þjóðarbúsins í heild.