138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni um að lífeyrissjóðakerfið okkar er jafnvel í hættu og þar sem lífeyrissjóðakerfi okkar hefur byggst upp í gegnum árin á sjóðssöfnun þeirra aðila sem greiða í sjóðina hefur það e.t.v. verið orsök þess að gerð var fjármálaárás á okkur. Það hefur komið fram í samtölum þeirra sem áttu bankana — ég vitna hér í frægt Kompásviðtal við Björgólf Thor þegar hann sagði að íslenska þjóðin væri að veði, lífeyrissjóðirnir hefðu verið að veði fyrir þeim lánum sem tekin voru. Að sjálfsögðu er þetta m.a. forsenda fyrir því að lífeyrissjóðirnir okkar eru í hættu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þetta er stórhættuleg staða sem við stöndum frammi fyrir, enda hefur það komið í ljós hjá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að lífeyrissjóðir landsmanna — sem fólkið sjálft á en ræður ekki yfir því að Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa sagt að þeir ætli að rísa upp á afturlappirnar verði tillögur flokks hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokksins, að veruleika, um að innskatta séreignarsparnaðinn, þeir ætla að rísa upp á afturlappirnar og mótmæla því þrátt fyrir að fólkið í landinu eigi lífeyrissjóðina — voru notaðir að veði. Og þetta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankinn hafa reiknað sig upp í í þessu nefndaráliti þar eru lífeyrissjóðirnir alls staðar teknir inn sem eignir þjóðarbúsins svo það sé á hreinu. Margir átta sig ekki á því að lífeyrissjóðirnir falla undir eignir þjóðarbúsins.

Mig langar til að spyrja þingmanninn, af því að þegar fulltrúar Seðlabankans komu á fund þingflokks framsóknarmanna töldu þeir raunhæft að íslenska ríkið gæti farið að endurfjármagna sig á árunum 2010–2011. Ég hváði mjög við því þar sem uppi eru náttúrlega þessar spár um að ríkissjóður sé að falla í ruslflokk. (Forseti hringir.) Er þetta ekki hrein og bein ímyndunarveiki hjá fulltrúum Seðlabankans?