138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að segja að þetta sé ímyndunarveiki. Ef hlutirnir falla með okkur er ekki ólíklegt að við getum farið að fjármagna okkur aftur á alþjóðamörkuðum en til þess þarf náttúrlega að vera eitthvert vit í ríkisfjármálunum. Það þarf að vera eitthvert vit í atvinnustefnunni og það þarf að vera eitthvert vit í því hvernig skuldasamsetning landsins er. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn ekki borið gæfu til að huga að þeim þrem atriðum sem ég nefndi hér og því dýpra sem við sökkvum í þetta fen óráðsíuákvarðana og hugmynda sem ganga ekki upp, þeim mun minni líkur eru á að við fáum aðgang að alþjóðalánamörkuðum í framtíðinni. Að því leyti til get ég verið sammála hv. þingmanni.

Það er eitt sem hefur kannski ekki komið fram og það er að hin gríðarlega sjóðssöfnun í lífeyrissjóðakerfinu er m.a. partur af því af hverju kerfið óx svona mikið á Íslandi. Hér voru gríðarlega miklir peningar sem þurfti að sýsla um og leiddi til þess að til varð mikil þekking og raunveruleg útrás úr umsýslu lífeyrissjóðapeninga til útlanda getum við sagt. Bara peningarnir sem þurfti að umsýsla fyrir lífeyrissjóðina námu í hlutfalli við landsframleiðslu svona hefðbundnu bankakerfi í öðrum löndum. Við getum því litið til lífeyrissjóðakerfisins og sagt að kannski megi rekja einhverjar af ástæðunum fyrir því hve bankakerfið hér óx allt úr hófi fram til þess hvað þurfti að umsýsla mikið af peningum hér. Ég veit ekki hvort þessi skoðun hefur komið fram áður.