138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt athugað hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að þú notar ekki sömu krónuna í tvennt. Það er algerlega ljóst að þær ráðstafanir sem við erum að fá smjörþefinn af í fjárlagafrumvarpinu, og í þeim frumvörpum sem hafa verið lögð fram á tekjuhliðinni, ganga út á það að auka skattlagningu og minnka þjónustu. Það er verið að skera niður hluti eins og fæðingarorlof, það er verið að frysta persónufrádrátt þannig að persónufrádráttur þróast ekki eins og hann á að þróast samkvæmt lögum. Þar munar einhverjum 3.600 kr. Það er verið að rúlla til baka hlutum í heilbrigðiskerfinu. Menntakerfið býr við það að þurfa að skera niður. Allt er þetta eðlilegt og skiljanlegt vegna þess að forsendan sem stjórnarflokkarnir gefa sér er sú að það séu bara tvær leiðir til að loka þessu gati, það er annars vegar skattlagning — meira að segja hæstv. menntamálaráðherra kvað upp úr með það í andsvari á dögunum að við þyrftum að skattleggja okkur út úr þessari kreppu — og síðan er þessi niðurskurður á þjónustunni og velferðinni.

Það sem mér er lífsins ómögulegt að skilja er það að ef við ætlum að halda þeim stofni skattgreiðenda sem við höfum á Íslandi getum við ekki skert lífskjör þeirra stórkostlega eins og gert er ráð fyrir að þurfi að gera vegna þess að þá fara þeir úr landi og þá eykst vandinn fyrir þá sem eftir standa. Þeir sem eftir standa eru þá þeir sem geta ekki fært sig á milli, þ.e. þeir sem eru aldraðir, geta ekki verið á vinnumarkaði og þeir sem eru ungir, geta ekki verið á vinnumarkaði. En við missum innan úr verðmætasta fólkið í þessum skilningi, auðvitað er allt fólk verðmætt, fólk sem getur búið til skatttekjur til að við komumst út úr þessu.