138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni skrif og athugasemdir sem þrír landsþekktir lögfræðingar hafa gert við það að við séum hugsanlega að brjóta stjórnarskrána. Hugleiðingar þeirra beinast að því, eins og hv. þingmaður endaði mál sitt á, að við séum að setja það mikinn klafa á íslenska þjóð að efnahagslegt öryggi hennar sé í hættu vegna þess að við vitum í raun og veru ekki hver upphæðin er sem leggja á á íslenska þjóð, því að það sé svo margt sem eigi eftir að koma þar inn í, bæði gagnvart gengisáhættu og öðru. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að eftir að menn tóku efnahagslegu fyrirvarana úr sambandi, þ.e. að það væri ákveðin greiðsla á ári sem var mjög mikilvægt atriði í þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykki með lögum í lok ágúst, og settu þetta upp og Seðlabankinn, sem maður styðst við núna í meirihlutaáliti fjárlaganefndar og á að gera okkur kleift að greiða þessar skuldir, þ.e. að það sé gríðarlegur afgangur á vöruskiptajöfnuði upp á marga tugi milljarða, hver er ástæðan fyrir því að núna ætlar stjórnarmeirihlutinn að reyna að selja þingmönnum og þjóðinni það að þetta sé alveg hægt og engin vandamál? Og hver er ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar keyptu ekki þessi rök og sögðu að þetta rúmaðist innan þessara efnahagslegu fyrirvara, greiðslurnar til að greiða niður skuldirnar og lánið? Hver er skoðun hv. þingmanns á því að Bretar og Hollendingar gerðu þar alvarlegar athugasemdir og í raun og veru umbyltu þeim? Var það vegna þess að Bretar og Hollendingar höfðu kannski ekki jafnmikla trú og stjórnarþingmennirnir á því að þetta muni ganga eftir, þ.e. að allt muni ganga upp að við eigum að geta staðið undir þessum skuldbindingum?