138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágæta ræðu eins og hans er von og vísa. Hann hefur verið ötull við að fjalla um þetta mál. Ég veit ekki hve oft hann er búinn að standa upp úr þeim stól sem hann situr í þarna úti í horni.

Þannig er mál með vexti að margir álíta hagfræðina vera raunvísindagrein, þ.e. að hún sé eins og t.d. verkfræði eða stærðfræði, að það sé sett fram eitthvert líkan og síðan eigi hlutirnir að rætast. Þetta er rangtúlkun á hagfræði og misskilningur á því hvað þessi grein er vegna þess að hagfræði er í raun og veru félagsvísindagrein eða ein af félagsvísindagreinunum og hún er félagsvísindagrein sem fjallar um efnahagslega hegðun manna í hópi. Hagfræðin eru ónákvæm vísindi eins og allir sem þekkja til hennar þekkja, en þó sýnist mér hagfræðin vera hátíð hjá lögfræðinni. Þar virðast menn geta komið fram með hvaða skoðanir sem eru og jafnvel virtir fræðimenn án þess að nokkur botn fáist í málið. Mig langar til að biðja hv. þingmann að segja mér aðeins frá þessum fundi í fjárlaganefnd og skoðun hans á því stjórnarskrárálitaefni sem við höfum verið að fjalla um hérna.