138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er athyglisverð spurning. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir hana. Ég held að af þeim ástæðum sem við höfum séð ákveðna gagnrýni frá fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar á því hvernig haldið hefur verið á málinu. Ég mundi telja að hún byggðist að hluta til á því að þegar samið var um Brussel-viðmiðin var Frakkland í forsæti fyrir Evrópusambandið og eins og hún hefur skýrt þetta eftir á virðist vera eins og hún hafi séð fyrir sér að þetta yrðu samningar á milli þjóðríkja en ekki lánasamningur á milli innstæðutryggingarsjóðanna.

Það er líka athyglisvert að skoða þá umfjöllun sem nú er í gangi hjá Evrópusambandinu um fjármögnun á innstæðutryggingarsjóðum. Það eru þrjú mismunandi form á fjármögnun sjóðanna. Það er í fyrsta lagi hrein og klár ríkisábyrgð sem þessi ríki hafa af þessum 27 löndum. Í öðru lagi eru þau með forfjármögnun eins og er hjá okkur þar sem borgað er ákveðið gjald inn í sjóðinn. Í þriðja lagi er það sem er borgað eftir á, eins og virðist vera í tilfelli bresku og hollensku sjóðanna, alla vega breska sjóðsins. Þar var verið að tala um hvort ekki hefðu átt að vera, þegar við horfum til baka, einhver fordæmi um þessa samninga milli þessara sjóða til að aðstoða fjármögnunina. Það lá fyrir að kæmi eitthvað upp á gæti innstæðutryggingarsjóðurinn, miðað við stærð bankakerfisins hjá okkur, ekki staðið undir því. Ég veit ekki til að þetta hafi verið skoðað sérstaklega, hvorki í sumar né núna í vetur, hvort það hefði verið betra. En þeim brá mjög við ábendingarnar sem komu frá Seðlabankanum um ákvæði (Forseti hringir.) sem vantaði og lögfræðingar Seðlabankans gerðu athugasemdir við það og sögðu að það væri ýmislegt sem fór inn í samninginn sem hefði raunar ekki átt að fara inn.