138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil líka spyrja hv. þingmann um það að inni í þessum frumvarpssamningum, sem stjórnarmeirihlutinn leggur til að verði samþykktur, er Íslendingum, íslenskri þjóð, gert skylt að greiða um 45 milljarða sem íslensk þjóð þarf ekki að standa skil á, í formi þess að við erum að greiða vexti frá 1. janúar og við erum að borga 3,5–4 milljarða umsýslugjöld bara fyrir Breta og Hollendinga til að greiða út skuldirnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað rekur stjórnarmeirihlutann til að gera þetta, að taka að sér að greiða skuldbindingar sem okkur ber ekki að gera á sama tíma og við erum að skerða greiðslur til ellilífeyrisþega, öryrkja, fatlaða, skerða fæðingarorlof og hvaðeina sem má nefna? Hvað rekur stjórnarmeirihlutann til að taka slíkar ákvarðanir á þessum tímum? Mig langar til að velta þessu upp við hv. þingmann því mér er það gersamlega óskiljanlegt að menn skuli gera þetta, að ætla klárlega að borga 40–45 milljarða sem við þurfum sannarlega ekki að gera.