138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er talað um að við séum að flýta okkur of mikið. Í bréfi sem Seðlabanki Íslands sendi forsætisráðherra 9. október sl. er sýnt fram á það hvað geti falist í því ef ekki náist sátt í Icesave-deilunni. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Líklegt er að lánshæfismat Íslands verði lækkað náist ekki sátt í Icesave-deilunni og endurskoðun efnahagsáætlunarinnar tefjist þess vegna. Ef lánshæfismatið fellur niður fyrir fjárfestingarflokk kunna sumir stofnfjárfestar að vera tilneyddir að selja eignir sínar um leið og færi gefst vegna þess að þeim er ekki heimilt að fjárfesta í svo lágt metnum eignum. Lægra lánshæfismat gæti þannig skapað hættu á óstöðugleika þegar höft verða afnumin. Því yrði ráðlegt að fresta a.m.k. afnámi hafta á tiltekna eignaflokka þar til endurskoðunin liggur fyrir.“

Þessu til viðbótar bendir Seðlabankinn á að þetta geti torveldað endurfjármögnun íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga og bendir jafnframt á að erfiðara yrði fyrir fjármálastofnanir að ná undir sig fótum á ný og sama eigi við um aðgengi ríkissjóðs að erlendum lánsfjármörkuðum. Ég vil spyrja hv. þingmann í ljósi þess að hann vill gjarnan að þetta mál dragist lengur í afgreiðslu þingsins: Hefur þingmaðurinn raunverulega ekki áhyggjur af þessari spá Seðlabankans?