138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:24]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að full ástæða sé til að hafa þungar áhyggjur af þessu með lánshæfismatið, ekki síst í ljósi þeirra fregna sem bárust í dag frá Norræna fjárfestingarbankanum. En það er annað sem ég vil líka beina til hv. þingmanns, af því að henni og fleirum hefur orðið tíðrætt um stjórnarskrárákvæðin, og vitnað í þrjá lögmenn þess efnis að hugsanlega sé verið að binda hendur þingsins með afgreiðslu þessa samnings. Sjálf hef ég unnið eið að stjórnarskránni sem í 1. gr. sinni kveður á um að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Nú er sú staða uppi að 16 þingmenn af 63 halda þinginu í gíslingu með málþófi og hindra þar með mig og meiri hluta þingsins í störfum okkar fyrir land og þjóð. Ég spyr: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af þessari stöðu gagnvart stjórnarskránni?