138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég geta þess að þrátt fyrir alla þá löngu umræðu sem hér hefur farið fram og það hvernig við höfum farið efnislega yfir málið er enn þá til nokkuð sem heitir leynimappa. Í henni eru gögn sem ég tel mjög mikilvægt að fjölmiðlar landsins og almenningur fái aðgang að. Það er nákvæmlega ekkert í þessari möppu sem útskýrir leynd yfir henni. Ég óska eftir því, frú forseti, að forseti beiti sér sérstaklega fyrir því að leyndinni verði aflétt þannig að allt verði uppi á borðum í þessu máli vegna þess að senn dregur að því að hér verði gengið til atkvæða.

Ég held að það skipti nefnilega máli að fjölmiðlar og aðrir átti sig nákvæmlega á aðdraganda þessa máls, hvernig staðið var að samningaviðræðunum og hvenær þeim var lokið. Getur verið að þeim hafi verið lokið fyrir síðustu kosningar? Getur verið að núverandi stjórnvöld hafi leynt íslensku þjóðinni því að búið væri að semja þangað til eftir kosningar? Þetta eru spurningar sem við verðum að fá svör við. Við náðum með mikilli baráttu að fá aflétt svokölluðum viðaukasamningi og þar þurfti að setja hvorki meira né minna en tvo fyrirvara, annan um að auðlindir þjóðarinnar yrðu settar að veði, auðlindir allra Íslendinga. Það sem gerir það að verkum að hér er gott að búa, að við fáum tekjur inn í samfélagið, var sett að veði í viðaukasamningnum. Hins vegar er það sem hefur verið kallað Ragnars H. Halls fyrirvarinn. Þar plötuðu Bretar Íslendinga til að samþykkja að um leið og íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn fengi greitt úr þrotabúinu fengju Bretar greitt um leið. Þetta eru engir smáhagsmunir, virðulegi forseti, vegna þess að þarna erum við að tala um tugi ef ekki hundruð milljarða.

Ég stend núna í ströngu í fjárlagagerð ásamt öðrum meðlimum fjárlaganefndar. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara í blóðugan niðurskurð og kennir m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að það þurfi að gera. Það er reyndar það sem hann hefur alltaf lagt til. Það liggur fyrir að hann gengur erinda erlendra kröfuhafa og er hér ekki til annars en að tryggja að þeir fái greitt. Hann er ekki hér til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, það liggur fyrir. Okkur væri mun betur borgið án hans.

En í þessum blóðuga niðurskurði þurfum við að taka erfiðar ákvarðanir um heilbrigðismál, félagsmál og menntamál, erfiðar ákvarðanir sem snerta líf og atvinnu nánast allra Íslendinga. En hvað erum við þá að gera hér? Af hverju tölum við stjórnarandstæðingar svona hart gegn þessu máli, Icesave-málinu einu og sér? Ég ætla að nefna eina litla ástæðu.

Tekjuskattur 80.000 Íslendinga — og ég veit að hv. þingmaður sem nú gengur fram fyrir ræðustólinn hefur líka áhyggjur af þessu — fer bara í að greiða vextina af Icesave-samningunum. Það er tekjuskattur 80.000 einstaklinga á þessu sjö ára tímabili sem við áttum að vera í skjóli. Þegar maður setur þetta í samhengi held ég að það renni upp fyrir mönnum af hverju við stöndum hér og mótmælum því að Icesave-samningarnir verði að veruleika. Allur tekjuskattur íbúa Kópavogs, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Akraness fer í að greiða bara vextina af Icesave í þessu sjö ára skjóli. En hvað gerist þá? Þá byrjum við að borga höfuðstólinn. Vitum við hver fjárhæðin verður á endanum? Nei, við höfum ekki hugmynd um hana. Vitum við hvað það er mikið sem kemur úr þrotabúi Landsbankans? Nei, ekki hugmynd. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að okkur er meinaður aðgangur að þeim skjölum sem sýna okkur hvaða eignir eru þar á bak við. Það brýtur gjaldþrotalög sem heimila það að kröfuhafar, sem hljóta að vera íslenska þjóðin af því að hún á að bera ábyrgð, fái að sjá hvaða eignir liggja að baki. En hvað er það sem íslenska ríkisstjórnin skýlir sér þá á bak við? (Gripið fram í.) Bankaleynd. Takk fyrir. Þau skýla sér bak við það að hér ríki bankaleynd og þess vegna verða alþingismenn og íslenska þjóðin að gjöra svo vel að greiða atkvæði um Icesave-samningana með algjörlega bundið fyrir augu.

Um hvað voru virtustu lögmenn landsins að skrifa? Ekki bara þrír af virtustu lögmönnum landsins, heldur fjórir, skulum halda því til haga, jafnvel þó að Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, Sigurður Líndal lagaprófessor og Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hafi skrifað grein hefur einn virtasti lögmaður landsins, Ragnar H. Hall, einnig skrifað grein um málið. Allir benda þeir á að það að skuldbinda þjóðina svona langt fram í tímann geti einfaldlega ekki staðist stjórnarskrá Íslands. Og af hverju skyldi það vera? Það er nefnilega vegna þess að Ísland er fullvalda ríki. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og það ber að virða.

En hvað skyldi stjórnarskráin vera að segja okkur? Af hverju var sett svona ákvæði inn í stjórnarskrána, allir þessir fyrirvarar? Jú, til að koma í veg fyrir að ríkisstjórn á hverjum tíma gæti afsalað sér þessu fullveldi. Og af hverju eru settar svona þröngar skorður við því að samþykkja breytingar á stjórnarskránni? Af hverju þurfa að fara fram alþingiskosningar á milli þess sem stjórnarskránni er breytt? Það er til þess að menn séu ekki að leika sér með stjórnarskrá lýðveldisins. Það er til þess að þegar hér kemur vond ríkisstjórn sem ég er farinn að hallast mjög að að við búum við um þessar mundir geti ekki beitt sér eins og hún sé algjörlega einráð. Það er þess vegna sem við í stjórnarandstöðunni ætlum okkur að ræða þetta mál út í hörgul og ætlum ekki að hætta fyrr en stjórnarliðar eru búnir að hlusta það mikið að þeir treysti sér í rökræður við okkur. Af hverju er enginn stjórnarþingmaður í salnum hér í dag? (Forseti hringir.) Ég spyr, hæstv. forseti, og ég held að það sé mikið áhyggjuefni fyrir Alþingi Íslendinga.