138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að sú umræða sem við tökum hér sé öðrum þræði umræða um sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Þetta segi ég vegna þess að niðurstaða þeirra samninga sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita ríkisábyrgð fyrir felur í sér samþykki fyrir því að sá ágreiningur sem uppi er á milli Íslands og Bretlands annars vegar og Hollands hins vegar verði leystur án dóms og laga þannig að Íslendingar taki á sig alla skuldbindinguna sem um er deilt og Bretar og Hollendingar sleppi frá málinu án þess að axla nokkrar byrðar.

Lög væru lítils virði ef ekki væru til nein úrræði til þess að fá rétti sínum framfylgt fyrir dómstólum. Það er þannig í þessu máli að hvorir tveggja Bretar og Hollendingar reisa kröfu sína á hendur Íslendingum á lagareglu, á reglu sem tekin er upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ríkin deila um hvað feli í sér. Þeir segja að reglan feli það í sér að verði innstæðutryggingarsjóðurinn tómur beri ríkinu skylda til þess að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum sjóðsins. Við höfum alla tíð sagt að þetta megi ekki leiða af reglunni, þetta sé ekki innihald lagareglunnar sem vísað er til og þess vegna höfum við ekki þessa skyldu. Ríkisstjórnin er sammála þessari skoðun. Það segir meira að segja í 2. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér að íslenska ríkið hafi ekki fallist á að það hvíli nein lagaleg skuldbinding til þess að veita ríkisábyrgðina.

En Bretar og Hollendingar eru þessarar skoðunar og eins og svo oft hefur komið fram hér í umræðunni hafa önnur Evrópusambandsríki, og jafnvel Norðurlöndin líka, lýst þeirri skoðun sinni að þetta megi leiða af reglunni. Þar sem við höfum ekki fengið neina til þess að taka undir okkar sjónarmið, um að þetta sé röng lagatúlkun, hefur ríkisstjórnin ákveðið, þrátt fyrir að vera þeirrar skoðunar að skyldan sé ekki til staðar, að fallast á að veita ríkisábyrgðina sem felur í sér algjöra uppgjöf.

Ég sagði áðan að við stæðum í sjálfstæðisbaráttu og það segi ég vegna þess að ég fullyrði hér sem ég stend að engin önnur Evrópuþjóð mundi þurfa að sætta sig við þessa niðurstöðu. Ekkert ríki í Evrópusambandinu mundi sætta sig við þessa niðurstöðu. Engin önnur Evrópuþjóð mundi gera það, mundi láta það verða lok viðræðnanna að gefast upp fyrir kröfum viðmælandans án þess að eiga þann möguleika að fá skorið úr um skylduna.

Það er fróðlegt í þessu samhengi að horfa til þeirra orða sem fallið hafa nú nýverið. Við skulum taka nokkur dæmi.

Fyrst það sem Gordon Brown sagði á fundi G-20 ríkjanna þar sem stærstu iðnríki heims koma saman og fara yfir stöðuna í heimsmálum. Þar lét hann þau orð falla um endurskipulagningu á regluverki banka og fjármálakerfisins í heiminum, þörfina fyrir að taka það til endurskoðunar, að það gengi einfaldlega ekki upp að fáir gætu hirt hagnaðinn af mikilli áhættutöku en ef sú áhætta leiddi til mikils taps yrði að jafna því út á heilu þjóðirnar. Það er nákvæmlega sama krafa og hann er að gera á okkur. Hann er að gera þá kröfu á okkur að tapinu af rekstri einkabankanna verði jafnað út á íslensku þjóðina. Það gerir hann án þess að hafa fyrir því neinar skýrar lagaheimildir.

Fjármálaráðherra Hollands sagði fyrir nokkrum mánuðum, í umræðum um innstæðutryggingarkerfið, að augljóst væri að það hefði brugðist í því að veita tryggingu fyrir kerfishruni. Þau orð hefði hann ekki látið falla ef hann gengi út frá því að þjóðríkin stæðu ábyrg að baki innstæðutryggingarkerfinu. Í orðum fjármálaráðherra Hollands felst því viðurkenning á því að það er engin skylda til þess að veita ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðunum.

Þann 14. nóvember birtist frétt í Morgunblaðinu vegna viðtals sem fyrrverandi utanríkisráðherra hafði farið í á Skjá einum og ég geng út frá því að það hafi verið daginn áður. Þar sagði hún að við hefðum gengið til þessara samninga eins og sakamenn. Niðurstaðan væri að hennar áliti óásættanleg — ekki var hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu vegna orða hennar en að hún teldi niðurstöðuna algerlega óásættanlega fyrir okkur. En það er athyglisvert að hún skyldi hafa notað þetta orðasamband, að við höfum gengið til samninga eins og sakamenn.

Í þessum orðum liggur nákvæmlega það sama og Gordon Brown hafði sagt fyrir skemmstu, hollenski fjármálaráðherrann fyrir ekki löngu, nefnilega þetta: Við höfum ekki gerst brotlegir við nein lög. Það er ekki þannig að á okkur hvíli sú skýra lagaskylda að veita þessa ábyrgð. Í orðum utanríkisráðherra liggur þvert á móti — hún hefur því miður ekki komið fyrir fjárlaganefnd þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því af fulltrúum minni hlutans í nefndinni — að við Íslendingar höfum gengið til þessara samninga til þess að ná fram ásættanlegri lausn fyrir alla aðila. Það var á þeirri forsendu sem ég studdi þingsályktunartillögu þessa sama þáverandi utanríkisráðherra fyrir ári um að ganga til viðræðna við Breta og Hollendinga. Ég vildi freista þess, vegna þeirrar þröngu stöðu sem upp var komin á Íslandi, að ná samkomulagi þar sem ríkt tillit yrði tekið til allra aðila, þar sem við tækjum þátt í þeim mikla vanda sem upp var kominn vegna falls íslensku bankanna í Bretlandi annars vegar og Hollandi hins vegar. Í þeirri ákvörðun fólst ekki neins konar viljayfirlýsing um að við Íslendingar ætluðum að axla allar byrðarnar af málinu, þvert á móti. Enda var ekki efnt til þeirra viðræðna fyrr en kominn var traustur grundvöllur undir viðræðurnar en það voru hin sameiginlegu viðmið.

Ég ætla að leyfa mér að vísa í fleira en í orð Gordons Browns, fjármálaráðherra Hollands og fyrrverandi utanríkisráðherra. Við getum líka nefnt skýrslu seðlabanka Frakklands. Fyrir nokkrum árum tók nefnd innan bankans innstæðutryggingarkerfið til skoðunar og komst mjög eindregið að þeirri niðurstöðu að það væri ekki sniðið til þess að taka á hruni bankakerfis.

Við höfum líka fengið í meðferð þessa máls álitsgerðir frá prófessorum og hæstaréttarlögmönnum. Auðvitað hafa menn lýst hver sínu sjónarmiði og ekki laust við að einhver ágreiningur sé á milli fræðimanna en það er a.m.k. kominn skýr rökstuðningur fyrir því til þingsins að í fyrsta lagi sé engin skylda fyrir ríkið til að veita ríkisábyrgðina og í öðru lagi að þrátt fyrir öll samskiptin sem átt hafi sér stað allt frá síðasta hausti hafi hvergi á leiðinni verið gefin nein slík yfirlýsing eða ritað undir neina slíka skuldbindingu sem feli það í sér að þingið hafi bundnar hendur við afgreiðslu málsins.

Athugasemdir okkar snúa þess vegna að því að verið sé að niðurlægja okkur Íslendinga í þessu máli, með því að virða ekki sjálfstæði þjóðarinnar, með því að heimta niðurstöðu í þessu máli án dóms og laga. Engin þjóð getur orðið fyrir meiri niðurlægingu en þeirri að umheimurinn virði ekki sjónarmið viðkomandi um að láta reyna á réttarstöðu sína. Það felst enginn flótti í því að óska eftir því að koma ágreiningnum fyrir dómstóla. Það þarf enginn að skammast sín fyrir það að rísa upp og segjast vera tilbúinn til að axla allar þær byrðar sem á honum hvíla, viðurkenna allar skuldbindingar sem menn hafa skrifað undir, en menn vilji bara fá skorið úr um þann ágreining. Það þarf enginn að skammast sín fyrir þá afstöðu.

Ekkert ríki í okkar heimshluta getur með réttu bent til okkar Íslendinga og sagt: Þetta eru ekki stórir karlar þarna uppi á Íslandi. Þeir eru að reyna að koma sér undan því að taka til eftir sig. Þvert á móti. Við höfum frá fyrsta degi sagt: Við ætlum að axla allar þær skuldbindingar og byrðar sem á okkur hvíla á grundvelli EES-samningsins en það er ágreiningur um innihaldið.

Við höfum nú þegar, bæði með þeirri yfirlýsingu og ég tala nú ekki um með þeim lögum sem samþykkt voru hér á sumarþinginu, fyrir löngu gert allt það sem hægt er að ætlast til af okkur til að leysa þetta mál. Það er því forkastanlegt hvernig umheimurinn hefur komið fram við okkur og það er bara til eitt svar þegar menn reyna að setja okkur pólitíska afarkosti, þ.e. að standa á rétti sínum, standa á þeim sama rétti og allir aðrir mundu gera í sambærilegri stöðu. Hér er verið að reyna að þvinga okkur með bolabrögðum til þess að kyngja skuldbindingum sem með réttu hvíla ekki á okkur Íslendingum og þingið á ekki að taka þátt í þeim vinnubrögðum. Þingið á ekki að skrifa upp á slíka niðurlægingu.

Ég er þeirrar skoðunar að niðurlægingin felist í þessari meginniðurstöðu viðræðnanna en ekkert síður í smáatriðunum. Það er bæði í stóru sem smáu sem við erum niðurlægð í þessu máli. Tökum nokkur dæmi úr samningunum.

Við gerðum kröfu um það að tekið yrði tillit til þess hver efnahagsþróunin yrði hér á Íslandi. Sumarþingið sagði: Við erum reiðubúin til þess að ráðstafa inn á þessar skuldbindingar ef hagvöxturinn leyfir það. Því var hafnað af Hollendingum og Bretum vegna þess að þeir gera kröfu til þess að við stöndum alltaf skil á öllum vöxtum sem eru meginþorri greiðslnanna. Því var hafnað.

Í þessari niðurstöðu er það líka þannig að hvað varðar réttarstöðu Íslendinga, íslenska ríkisins, í þessum samningi skiptir niðurstaða Hæstaréttar Íslands ekki máli nema hún sé samdóma ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins eða Evrópudómstólsins. Það er verið að leggja það til hér að í samskiptum aðila samningsins skipti niðurstaða Hæstaréttar ekki máli. Í kröfunni um samning þar sem Bretar og Hollendingar fá greitt í sínum eigin gjaldmiðlum felst líka mikið vantraust á íslenskum dómstólum, ekki bara í því atriði sem ég var að nefna núna um Hæstarétt Íslands heldur líka í hinni staðreyndinni að hinn rétti dómstóll, sem er hér fyrir aftan okkur við Lækjartorg, Héraðsdómur Reykjavíkur, sem á auðvitað að fjalla um kröfur sem beint er að íslenska innstæðutryggingarsjóðnum og er líka til þess bær að fjalla um kröfuna um að íslenska ríkið veiti ábyrgð fyrir þessum skuldbindingum, er ekki viðurkenndur af gagnaðilum okkar í þessu máli. Hann er bara einfaldlega ekki viðurkenndur.

Á fundi í fjárlaganefnd í vikunni var það samdóma álit þeirra fjögurra lagaprófessora sem þar voru mættir að enginn vafi væri á því, algjörlega óumdeilt, að þeir sem ættu kröfu á Íslendinga í þessu máli þyrftu að stefna henni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þangað gætu þeir sótt rétt sinn. Það væri algjörlega óumdeilt. En þeir vöktu athygli á því að hinn pólitíski veruleiki leiddi kannski til þess að erfitt væri að fá kröfunni stefnt þangað og áttu þá við þær þvinganir sem við sætum.

Þegar menn segja að ekki sé til neinn dómstóll til að fjalla um lagalega ágreininginn þá er það rangt. Það er einungis vegna þess að þeir sem ætla að sækja rétt sinn treysta ekki íslenskum dómstólum. Varla er hægt að sýna einni sjálfstæðri fullvalda þjóð meiri niðurlægingu en þá að segjast í fyrsta lagi ekki treysta myntinni sem uppgjörsmynt í kröfum á milli þeirra, í öðru lagi að viðurkenna ekki rétt þjóðarinnar til að fá skorið úr um lagalegan ágreining og í þriðja lagi bæta því ofan á að jafnvel þótt til stæði að leysa ágreininginn kæmi ekki til greina að leyfa íslenskum dómstólum að fjalla um það. Semja síðan um það, svona til þess að bíta höfuðið af skömminni, að að svo miklu leyti sem samkomulag hafi tekist gangi það ekki að Hæstiréttur Íslands hafi úrslitavald í málum, það verði að vera bundið því skilyrði að úrskurður hans sé samdóma Evrópudómstólnum og ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum eftir atvikum, hvort sem það yrði.

Er hægt að komast að einhverri verri niðurstöðu fyrir okkur Íslendinga í einu máli?

Það er af þessari ástæðu sem ég sagði hér í upphafi að við værum í þessu máli einfaldlega að berjast fyrir því að í samskiptum okkar Íslendinga við aðrar þjóðir verði komið fram við okkur eins og aðrir ætlast til að komið sé fram við þá, þ.e. að ágreiningur geti farið til þriðja aðila til úrlausnar, að menn sýni hver öðrum hæfilega tillitssemi, að sjálfsagðar kröfur eins og þær sem við höfum haft uppi, t.d. hér á Alþingi með samþykkt fyrirvaranna frá því í sumar, séu ekki virtar að vettugi. Það er undið ofan af þeim fyrirvaralaust og öllu troðið ofan í kokið á mönnum samstundis. Allt þetta sameiginlega í stóru og smáu er að mínu áliti algjör niðurlæging.

Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin þá mæla fyrir því að við samþykkjum þetta mál? Ég held að ástæðan sé ósköp einfaldlega sú að hún telur okkur ekki eiga neinn annan valkost. En stjórnarandstaðan hér á þingi er ósammála því. Hún telur að sagan sýni að það sé fyrst þegar þrengt hefur verið að okkur, fyrst þegar við erum komin með bakið upp við vegg, sem komi í ljós úr hverju við erum gerð. Við höfum áður verið sett í slíka þrönga stöðu og verið litla þjóðin á móti stóra heimsveldinu. Þegar við kröfðumst þess þá að láta reyna á réttarstöðu okkar, sýna tennurnar, berjast fyrir sjálfstæði okkar og fullveldi, þá fyrst skildu viðsemjendur okkar að við ætluðum ekki að láta þvinga okkur til neinnar niðurstöðu. Það var einmitt á slíkum tímamótum sem stóru skrefin voru stigin eftir að lýðveldið var stofnað á Íslandi.

Í þessu máli ætla menn að bregðast öðruvísi við á úrslitastundu þegar á það reynir hvort menn ná fram vilja sínum gagnvart íslenskum stjórnvöldum, með því að beita bolabrögðum, með því að vera með ýmis klækjabrögð, t.d. í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða á fundi fjármálaráðherra síðasta vetur úti í Brussel, þar sem menn sammælast um að gefa nú ekkert eftir, þeir skuli tala sig saman á bak við tjöldin um það að gera Íslendingum erfitt fyrir vegna þess að þeir muni ekki standast þrýstinginn ef allir hinir standi á móti þeim. Á slíkri stundu eigum við að rísa upp og segja: Við förum ekki fram á annað en það sem þið munduð gera í sömu stöðu. Það eina sem við förum fram á er að fá skorið úr um þetta álitaefni fyrir hlutlausum aðilum.

Ekki er nóg með að það sé skrifað inn í lögin hvaða hlutlausi aðili það er sem ég var að vísa til hér áðan, hann er hérna við Lækjartorg. Við höfum meira að segja verið tilbúin til þess að gera málamiðlanir um það atriði. Því er líka hafnað. Við höfum boðist til þess að gera málamiðlanir um það hvar eigi að skera úr um þennan ágreining. Því er líka hafnað.

Við eigum því að hafa hreina samvisku í þessu máli þrátt fyrir allt það sem gert hefur verið hér í íslenska fjármálakerfinu, þrátt fyrir allt það mikla tjón sem orðið hefur hjá innstæðueigendum víða í Evrópu, vegna þess að við höfum fyrir löngu lýst því yfir að við ætlum að rísa undir skuldbindingum okkar. Við höfum líka boðið sanngjarna niðurstöðu í þetta mál og það getur enginn bent upp til Íslands og sagt: Þarna eru menn sem eru á flótta undan skuldbindingum sínum, menn sem rísa ekki undir því að taka þátt í samfélagi þjóðanna.

Jafnstór mál og þetta sem varða hálfa þjóðarframleiðsluna, spurninguna um það hvort við erum tilbúin til að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum einkabanka, á ekki að leysa með þeim hætti sem ríkisstjórnin leggur til.