138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að rifja þetta upp enn og aftur hér í þingsal, eins og svo margir stjórnarliðar hafa gert.

Lykilatriðið í þessum ummælum mínum er einmitt það að við fengjum betri niðurstöðu með samningum heldur en við yrðum dæmd í mögulegu dómsmáli. Ég tel að niðurstaðan sem við stöndum nú frammi fyrir sé jafnvond ef ekki verri heldur en ef dæmt yrði að við ættum að veita ríkisábyrgð í þessu máli. Höfum eitt í huga. Innstæðutryggingarsjóðurinn á lögum samkvæmt rétt á því að snúa öllum kröfum á sig yfir í íslenskar krónur. Ég held að það yrði jafnvel betri niðurstaða ef dæmt yrði að íslenska ríkinu bæri skylda til að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingum um innstæðutryggingarsjóðinn og hann mundi þá snúa öllum kröfum á sig í íslenskar krónur, þær yrðu síðan læstar hér inni í gjaldeyrishöftum og þannig væri dómsniðurstaðan jafnvel betri en þessi vondi samningur. (Forseti hringir.) En það munar ekki miklu.