138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Gæti verið að hv. þingmaður hafi verið með í huga þarna að við gætum tapað mörg hundruð milljörðum í viðbót ef dómsmál færi á þann veg að við bærum ábyrgð á öllum Icesave-skuldbindingunum, en ekki bara um það bil þeim helmingi sem við tökum á okkur á móti breskum og hollenskum skattborgurum?

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði og skrifaði þannig á þessum tíma að búið væri að ákveða hvernig málið yrði leyst. Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar 5. desember segir, með leyfi forseta:

„Þess má geta að á meðan ágreiningur aðila um þetta efni var óleystur var sú hætta fyrir hendi að Evrópusambandsríkin gripu til aðgerða gagnvart Íslandi sem settu EES-samninginn að hluta eða í heild í hættu.“

Þetta er afar athyglisvert orðalag frá meiri hluta stjórnarflokkanna 5. desember 2008, þegar ágreiningur um þetta efni var óleystur. Ríkisstjórnin leit svo á að ágreiningurinn væri leystur. Hvernig? Með því að Bretar og Hollendingar höfðu boðið fram forfjármögnun á okkar hluta málsins. Og í tilviki Hollendinga skrifuðu íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) undir viljayfirlýsingu um að þiggja það boð, (Forseti hringir.) lán til 10 ára á 6,7% vöxtum. (Gripið fram í.)